Nær kokkur Pútíns völdum í Rússlandi? Helgin getur ráðið úrslitum

Enginn skortur hefur verið á stórtíðindum frá Rússlandi undanfarna mánuði, en það sem gerst hefur síðastliðinn sólarhring er heimsögulegt með því að einn nánasti bandamaður Pútíns forseta, Yevgeny Prigozhin, leiðtogi Wagner-málaliðanna og sá sem gengið hefur undir heitinu kokkur Pútíns, hefur snúið byssuoddum herja sinna frá Úkraínu og að Rússlandi sjálfu og kveðst nú á leið til Moskvu með hersveitir sínar að ná þar völdum af duglausum herforingjum.

Pútín hefur brugðist ókvæða við; sakaði í ávarpi til þjóðar sinnar þennan fyrrum bandamann sinn um landráð og að stinga þjóð sína í bakið og segir að svikararnir muni hljóta makleg málagjöld. Sagði hann að framtíð Rússlands væri í húfi og allt yrði gert til að hrinda valdaránstilraunum.

Málaliðar úr fangelsum

Wagner-málaliðarnir eru einhver alræmdasta herdeild samtímans. Þetta er einkaher sem tekur að sér erfið verkefni gegn greiðslu. Frægt er að Prigozhin hefur sótt tugþúsundir manna í rússnesk fangelsi, morðingja, nauðgara og dæmda ofbeldismenn, og gefið þeim upp sakir gegn því að ganga til liðs við einkaher sinn.

Wagner-herinn hefur leikið stórt hlutverk í innrás Rússa í Úkraínu, en gagnrýnt mjög rússnesk hermálayfirvöld fyrir lélegt skipulag, ónógar byrgðir og vopn. Nú kveðst Prigozhin hafa fengið nóg og ætlar að taka stjórn rússneska hersins í eigin hendur í nafni réttlætisins.

Her hans er kominn frá Úkraínu og í morgun birtust myndbönd sem sýna Wagner-málaliða hafa náð tökum á herstöðvum í Rostov við Don í Rússlandi. Hafa þeir sett stefnuna á höfuðborgina Moskvu og stjórnvöld í Kreml hafa blásið af alla opinbera viðburði, sett öryggisviðbúnað á hæsta stig og gefið út handtökuskipun á Prigozhin og félaga.

25-50 þúsund manna her Wagner-málaliðanna er ekki nægilega stór að burðum til að geta fellt Pútín af stalli. En kokkurinn er mælskur og hvetur rússneska hermenn og almenning allan til að ganga til liðs við sig og breyta Rússlandi. Hvort Rússar svara því kalli gæti komið í ljós um helgina.

Þetta er svo sannarlega sögulegir tímar.