Nákvæmlega ekkert sem mælir með krónunni fyrir venjulegt fólk í landinu

„Það er pólitísk ákvörðun að halda sig við krónuna. Og einu sinni sem oftar er stór lífskjaraspurning á dagskrá: Hvers vegna þarf margfalt hærri vexti til að kæla verðbólgu hér en annars staðar?“

Þessa spurningu setur Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, fram á fésbókinni. Hún segir það verkefni stjórnmálanna að rýna hlut krónunnar þegar kemur að lífskjörum og verðbólgu.

„Það er á ábyrgð stjórnmálanna að svara því hvers vegna almenningur á að taka á sig kostnaðinn af margfalt meiri vaxtahækkunum sem alltaf fylgja krónunni. Hvers vegna?

Staðreyndin er nefnilega sú að það er nákvæmlega ekkert sem mælir með krónunni fyrir venjulegt fólk í landinu. Eitt stærsta velferðarmálið fyrir fólkið í landinu er að reyna að komast út úr þessum vítahring krónunnar. Að stjórnmálin hafi þrek til að gera meira en að bregðast alltaf bara við til skemmri tíma og fari að horfa fram á veginn,“ segir þingmaðurinn.