Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður flokksins, mættu ekki á opinn fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skipan sendiherra í utanríkisþjónustunni í morgun. Lesnar voru upp yfirlýsingarnar frá þeim í upphafi fundarins, en svo sátu Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra stuttlega fyrir svörum.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður nefndarinnar, las upp yfirlýsingar þeirra Sigmundar Davíðs og Gunnars Braga. Bentu þeir báðir á að tilefni fundarins væri óvenjulegt, byggt væri á sundurklipptum upptökum sem aflað hefði verið með ólögmætum hætti og til hans væri boðað í annarlegum tilgangi.
Gunnar Bragi benti á að hann hefði fyrir löngu dregið orð sín, sem féllu á Klausturbar í nóvember, til baka og hann hafi engu við það að bæta. Þingmönnum beri ekki skylda til að mæta til fundar af þessu tagi, allrasíst þegar til þeirra væri boðað til að koma höggi á pólitíska andstæðinga.
Sigmundur Davíð sagði ógjörning að segja til um hvað hafi verið klippt úr eða soðið saman í fyrrnefndum upptökum, á því hefði engin rannsókn farið fram og þær gætu því ekki legið umræðu á slíkum fundi til grundvallar.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra upplýsti á fundinum, að hann hefði á ríflega tveimur árum í ráðuneytinu ekki skipað neinn nýjan sendiherra. Þeir hefðu verið tuttugu talsins, þegar hann kom í ráðuneytið og hann hafi talið það of mikið, en nú væru þeir sautján.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði skipan sendiherra ekki á sínu forræði, en hann teldi stjórnmálamenn að mörgu leyti heppilega til að gegna stöðu sendiherra vegna reynslu sinnar af stjórnmálum og stjórnkerfi. Það mætti hins vegar alltaf ræða fyrirkomulag allra hluta, en slík umræða ætti líklega fremur heima í þingsal.
Opinn fundur um skipan sendiherra haldinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd miðvikudaginn 16. janúar kl. 10:30. Upptaka af fundinum.