Hugleiðingu dagsins á Ingvar S. Birgisson lögmaður og fv. aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, sem veltir fyrir sér gagnrýni á aðgerðir lögreglu gegn mótmælendum á hvalveiðibátum við Reykjavíkurhöfn:
„Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðunni sl. daga um nýjustu mannréttindin. Fólk, að því gefnu að það sé að stunda mótmæli af einhverju tagi, á að geta hlekkjað sig við eigur annarra, t.d. fasteignir, skip eða bifreiðar, og fengið á meðan greiðan aðgang að drykkjarföngum, mat og helst svefnpokum.
Þetta stenst auðvitað enga skoðun, enda byggja þessi ekki mannréttindi beinlínis á því að viðkomandi eigi að vera heimilt að brjóta gegn eignarétti annarra afskiptalaust og njóta stuðnings á meðan brotið er framkvæmt.
Svo má reyna að leiða þetta út… Ætti andstæðingur kjötáts að geta hlekkjað sig við tækjabúnað í sláturhúsi SS á Hvolsvelli, stöðvað framleiðsluna og svo gert kröfu um að fá Powerade og Sóma samlokur? Hvað ef andstæðingur Samtakanna 78 myndi efna til mótmæla við skrifstofu samtakanna og festa sig við hurðagarminn? Mætti andstæðingur fóstureyðinga hlekkja sig við skurðstofu uppi á LSH og gera svo kröfu um að fá spítalamat?
Ég hef eflaust verið sofandi í laganáminu þegar þessi mannréttindi voru kennd,“ skrifar Ingvar ennfremur.