Nýr fjármálaráðherra: Orðaskipti Kristrúnar Frostadóttur og Þórdísar Kolbrúnar á þingi

Frá þingumræðum.

Fyrstu orðaskipti formanns Samfylkingarinnar við nýjan fjármálaráðherra áttu sér stað við upphaf þingfundar á Alþingi í morgun. Kristrún vildi heyra hverjar áherslur nýs fjármálaráðherra væru gagnvart aðsteðjandi vanda í efnahagsmálum, mikilli verðbólgu og háum vöxtum.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar:

„Forseti. Þegar ráðherra hefur misst trúverðugleika — þá getur verið gott að það komi maður í manns stað. Í mannabreytingum geta falist mikil tækifæri; ef þeim fylgja raunverulega breyttar áherslur — breytt stefna. Ég vil óska hæstvirtum fjármálaráðherra góðs gengis. Hún erfir erfitt bú og verkefnin eru ærin.

Ég vil líka óska þess — og hugsa að ég tali fyrir marga landsmenn — að hæstvirtur fjármálaráðherra hafi kjark og styrk til að taka upp raunverulega breyttar áherslur. Ekki síst í baráttunni við verðbólgu og háa vexti. Ég kalla eftir forystu og hæfni í stjórn efnahagsmála — skýrum skilaboðum til landsmanna um að nú verði skipt um kúrs.

Hæstvirtur fjármálaráðherra er nefnilega nýtekin við mestu valdastöðu í íslensku efnahagslífi.

Hún gæti haft áhrif strax í dag — á verðbólguvæntingar — með afdráttarlausri yfirlýsingu um að nú verði verðbólgan tekin alvarlega; með viðurkenningu á því að viðureignin við verðbólguna hefur ekki gengið nógu vel — og að það gangi ekki að bjóða bara upp á meira af því sama.

Fyrrverandi fjármálaráðherra hélt því fram að það væri — með leyfi forseta — „ekki hlut­verk rík­is­fjármálanna að vinna bug á verðbólg­unni“. Með slíkum yfirlýsingum dró ráðherrann úr eigin trúverðugleika og ýtti undir meiri verðbólgu en ella.

Það væri til dæmis ágæt byrjun hjá hæstvirtum fjármálaráðherra að draga þessi orð forvera síns til baka og lýsa því yfir fullum fetum: að það sé víst hlutverk ríkisstjórnarinnar að vinna bug á verðbólgu og endurheimta hér efnahagslegan stöðugleika.

Því vil ég spyrja hæstvirtan fjármálaráðherra tveggja spurninga:

Í fyrsta lagi — er hún sammála forvera sínum um að það sé „ekki hlut­verk rík­is­fjármálanna að vinna bug á verðbólg­unni“?
Og í öðru lagi — munum við sjá breyttar áherslur með nýjum fjármálaráðherra, hæstvirtum, í baráttunni við verðbólgu og háa vexti? Eða munum við bara sjá áfram meira af því sama?“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins:

„Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka háttvirtum þingmanni fyrir heillaóskir. Ég kann að meta það. Og ég kann að meta þær móttökur sem ég hef fengið og ég get sagt það fyrir mitt leyti að ég mun leggja áherslu á það að vinna með þinginu öllu í þeim verkefnum sem skipta almannahag máli. Við vitum að hér eru mjög stórar áskoranir fram undan sem enginn leysir einn, ekki einu sinni fjármálaráðherra né einstaka stofnanir, heldur við saman.

Það er yfirlýst markmið stjórnarsamstarfs, og blaðamannafundar fyrir örfáum dögum síðan með stjórnarflokkum, að markmið þessarar ríkisstjórnar, á síðari hluta kjörtímabilsins, sé að ná tökum á verðbólgunni. Við getum haft kannski mismunandi skoðanir á því hvers vegna hún er eins há og hún er, en ég held að heilt yfir ættum við að geta verið sammála um stóru línurnar í því. Hluti vandans er að fólk þarf auðvitað að trúa því að við munum ná tökum á verðbólgunni. Ef fólk trúir því ekki í nægilegum mæli þá hefur það einfaldlega áhrif á verðbólguna eins og hún er.

Sömuleiðis vitum við að kjaraviðræður verða risastórt verkefni sem mun hafa meiri háttar áhrif á það hvernig verðbólgan þróast og það hvort fólk trúi því að við sem samfélag séum tilbúin að gera það sem þarf til að ná tökum á því. Ef okkur tekst saman að tala þannig að það séu réttmætar væntingar að verðbólga muni lækka á komandi misserum þá trúi ég því að fólk muni vera tilbúið til að semja með þeim hætti.

Ég skil, ef fólk er í mikilli óvissu og trúir því ekki að hún muni lækka, að það verði erfiðara að sannfæra sína félagsmenn um að launahækkanir verði ekki þeim mun meiri í krónutölum heldur trúiði því að við náum fram sparnaði fyrir fjölskyldur í þessu landi með lækkandi vaxtakostnaði en ekki með því að hækka krónutölur sem síðan brenna og áfram verður verðbólga og við náum ekki tökum á því. Þetta er verkefnið. Ég get sagt fyrir mitt leyti: Ég skil mína ábyrgð í því. Ég mun leita til allra sem vilja vinna með mér og okkur í því vegna þess að ég trúi því raunverulega að þetta sé hægt.“

Kristrún Frostadóttir:

„Virðulegi forseti. Ég þakka hæstvirtum ráðherra fyrir svarið. Ég velti fyrir mér hvort nýja línan hjá ríkisstjórninni sé sem sagt sú að við þurfum bara að trúa því að verðbólgan fari niður og að það sé nóg að ríkisstjórnin tali nógu hátt og nógu oft um að verðbólgan muni fara niður. Fólkið þarna úti er að glíma við gífurlega kaupmáttarskerðingu — fjórir ársfjórðungar í röð sem kaupmáttur hefur dregist saman. Við vitum að staðan er mjög slæm til að mynda hjá fólki á leigumarkaði, fólki á lágum tekjum. Fyrir það dugar ekkert að heyra bara frá ríkisstjórninni að þau trúi því að verðbólgan muni fara niður.

Í aðdraganda kjarasamninga mun aðkoma ríkisstjórnarinnar skipta lykilmáli, sökum þeirrar velferðarstefnu sem hefur verið stunduð hér undanfarin ár og grafið undan vaxtabóta- og barnabótakerfinu og almennum húsnæðisstuðningi.

Þannig að ég spyr hæstvirtan ráðherra: Mun koma eitthvað nýtt út úr fjármálaráðuneytinu eftir að hún tók þar við sem mun liðka fyrir kjarasamningum? Eða snýst þetta bara um að ríkisstjórnin trúi á sjálfa sig?“

Þórdís Kolbrún:

„Herra forseti, fyrst verð ég nú að segja að ég veit að háttvirtur þingmaður kemur frá góðum stað með það að verkefnið sé stórt. En það er auðvitað ekki alveg sanngjarnt að tala niður með þessum hætti stöðu íslensks samfélags sem er auðvitað á allan hátt með því besta sem fyrirfinnst á byggðu bóli. Það eigum við öll að vita hér. Það hef ég fundið mjög í mínum fyrri störfum.

Þannig að þrátt fyrir að við séum með stór verkefni sem fjölskyldur í þessu landi finna fyrir þá er það heimatilbúið verkefni; heimatilbúnar lausnir sem við munum geta leyst ef við gerum það sem þarf.

Auðvitað er það ekki þannig að það sé nóg að segja að fólk væri að trúa því ef það fylgja ekki aðgerðir með. En þá bendi ég líka á að til að mynda allar hugmyndir um meiri háttar útgjaldaaukningu munu leiða það af sér að það verður ekki trúverðugleiki sem þarf til að ná tökum á verðbólgu.

Vandi ríkissjóðs er ekki tekjuvandi heldur er það útgjaldavandi. Hins vegar, aftur, vitum við að það mun þurfa að koma til — og verður hluti af því að ná samningum — að ríkið komi inn í það með einhverjum hætti. En verkefnið er algjörlega skýrt og það skiptir öllu máli að við gerum það sem þarf til þess að ná því.“