Diljá Mist Einarsdóttir, kemur sterk inn sem nýr formaður utanríkismálanefndar Alþingis, með því að senda öllum ráðherrum í ríkisstjórninni erindi með hvatningu um að gera regluverk ekki meira íþyngjandi en þörf krefur við innleiðingu EES-gerða.
Diljá Mist skýrir frá þessu í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag, en í bréfi hennar til ráðherranna segir:
„Utanríkismálanefnd Alþingis hefur yfirumsjón með umfjöllun nefnda þingsins um EES-mál. Löggjafinn leggur ríka áherslu á virka þátttöku þingsins í samstarfi um EES-samninginn og hefur sett sérstakar reglur um þinglega meðferð EES-mála. Þar kemur m.a. fram að við framlagningu nauðsynlegra frumvarpa til lagabreytinga, vegna innleiðinga EES-gerða í íslensk lög, skuli tilgreint sérstaklega í greinargerð ef gengið er lengra en lágmarksákvæði viðkomandi gerðar kveða á um. Í þeim tilfellum skal rökstuðningur fylgja slíkri ákvörðun, sbr. 8. gr. reglnanna.
Í skýrslu starfshóps um EES-samstarfið frá 2019 er m.a. fjallað um framangreint, þ.e. tilvik þar sem stjórnvöld herða á íþyngjandi EES-gerðum við innleiðingu þeirra. Þar kemur fram að víða sé pottur brotinn hvað þetta varðar, en Alþingi samþykkti á liðnum vetri skýrslubeiðni undirritaðrar til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um slík tilvik á málefnasviði ráðherrans.
Það er mikilvægt að ekki sé gengið lengra við innleiðingu EES-gerða en þörf er á. Innlend fyrirtæki og neytendur eiga að sitja við sama borð og aðrir á innri markaði Evrópusambandsins, auk þess sem íþyngjandi og óskilvirkar reglur sem eru sagðar stafa frá EES-samstarfinu koma óorði á samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.“
Þetta er mikilvægt frumkvæði hjá nýjum formanni utanríkismálanefndar. Allt of algengt viðhorf er að EES-tilskipanir séu innleiddar hér með sjálfvirkum hætti og jafnvel gengið of langt í túlkun þeirra með íþyngjandi hætti fyrir almenning og fyrirtæki. Hafa embættismenn ráðuneyta stundum reynst kaþólskari en páfinn í þeim efnum og vonandi verður bréf Diljár Mistar til þess að rétta af kúrsinn. Um leið er ágætt að minna ráðherra á að vald þeirra er komið til vegna þingmeirihlutans og að löggjafarsamkundan á að ráða ferðinni. Það hefur stundum viljað gleymast…