Nýtt gostímabil festir Reykjavíkurflugvöll í sessi og að Hvassahraun er óraunhæfur möguleiki

Á fundi borgarráðs Reykjavíkur í gær fór fram umræða um eldgos á Reykjanesskaga. Var það fyrsta mál á dagskrá fundarins. Þar færðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til bókar að endanlega sé ljóst að nýtt flugvallarstæði geti ekki orðið við Hvassahraun með því að nýtt eldgosatímabil er hafið á Reykjanesi og að Reykjavíkurflugvöll beri að festa í sessi.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, staðfestir þetta við Viljann. Bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins var svohljóðandi:

„Þriðja eldgosið á Reykjanesskaga á jafnmörgum árum sýnir að nýtt gostímabil er hafið á svæðinu, sem gæti staðið öldum saman. Jarðfræðingar benda á að það mynstur virðist vera að skapast að gosvirknin færist í norðaustur frá Fagradalsfjalli og þar með nær höfuðborgarsvæðinu. Þessi þróun sýnir að hugmyndir um lagningu nýs alþjóðaflugvallar í Hvassahrauni eru óraunhæfar vegna jarðhræringa og eldgosahættu eins og jarðvísindamenn og atvinnuflugmenn hafa bent á árum saman.

Reykjavíkurflugvöllur mun því áfram gegna mikilvægu hlutverki í innanlandsflugi, sjúkraflugi og björgunarflugi og brýnt að ekki verði þrengt að vellinum frekar en orðið er eins og til stendur að gera með nýrri byggð í Skerjafirði. Sjúkraflugið hefur aukist mikið á síðustu árum og er nú almennt viðurkennt sem mikilvægur hlekkur í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Þá gegnir Reykjavíkurflugvöllur mikilvægu hlutverki í millilandaflugi sem varaflugvöllur Keflavíkurflugvallar.“