Nýtt plan fyrir Evrópu: Hvetur til byltingar innan ESB

Viktor Orbàn.

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjaland, var venju fremur herskár á fréttamannafundi í Búdapest í dag þar sem hann varaði við því að Evrópa sé að skiptast í tvennt, kristinn hluta og svo blandaðan þar sem Múhameðstrú hafi sífellt aukið vægi. Sagði hann mikilvægt að öfl sem berjast gegn innflytjendum taki höndum saman og bylti ráðandi öflum innan Evrópusambandsins.

Orban, sem vakið hefur athygli og hneykslan margra fyrir heldur grímulausa þjóðernisstefnu sína, sagði að blandað samfélag Kristinna manna og Múhameðstrúar væri orðið til í Vestur-Evrópu, en hefðbundnara samfélag Kristinna manna væri enn til í Mið-Evrópu og standa bæri um það vörð.

Hvatti forsætisráðherrann til að stjórnmálaöfl sem hafa fengið sig fullsödd af ríkjandi innflytjendastefnu í álfunni tækju sig saman fyrir kosningarnar til Evrópuþingsins í maí næstkomandi og gerðu sig gildandi.

Stillti hann Macron Frakklandsforseta upp sem helsta stuðningsmanni fjölmenningarstefnunnar og sjálfum sér á hinum endanum og þann slag ætli hann sér að vinna.

Jós ungverski forsætisráðherrann ítölsk stjórnvöld sérstöku lofi og talaði um öxul  millum Rómar og Varsjár um leið og hann tók undir fyrirheit um Vor í Evrópu, sem ítalski aðstoðarforsætisráðherrann Matteo Salvini boðaði í opinberri heimsókn sinni til Póllands í gær, en þar gagnrýndi hann stjórnvöld í Frakklandi og Þýskalandi harðlega og sagði þau tefla framtíð Evrópu og evrópskrar menningar í tvísýnu.

„Salvini er hetjan mín,“ sagði ungverski forsætisráðherrann sigurreifur um leið og hann tilkynnti viðræður milli ríkisstjórnar sinnar og þeirrar pólsku um Nýtt plan fyrir Evrópu.