Ófrávíkjanleg krafa um afturvirkni setur strik í reikninginn

Ófrávíkjanleg krafa forystu VR, Eflingar og fleiri félaga í viðræðum við Samtök atvinnulífsins um afturvirkni gildistöku samninga frá 1. janúar sl. gæti gengið upp, að sögn Samtaka atvinnulífsins, en þá aðeins að samið verði fyrir lok mánaðarins og tekið verði mið af svigrúmi atvinnulífsins til launahækkana. Nánast útilokað er að slíkt verði samþykkt og með þessu segir formaður VR, að Samtök atvinnulífsins séu í reynd að hafna afturvirkninni.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram, að til þess að liðka fyrir viðræðum og lausn geti Samtök atvinnulífsins fallist á að gildistaka kjarasamninga verði afturvirk frá 1. janúar 2019. Skilyrðið fyrir því er þó að samningar náist fyrir lok þessa mánaðar sem taki mið af svigrúmi atvinnulífsins til launahækkana.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

„Þetta tilboð fellur auðvitað niður ef viðræðum verður slitið og boðað til verkfalla enda ber allt samfélagið kostnað af þeirri aðgerð,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, í samtali við blaðið.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur þegar brugðist við þessu útspili á fésbókarsíðu sinni og gefur ekki mikið fyrir það:

„Hingað til hafa SA ekki viljað gefa upp hvert svigrúmið er. Þeir hafa hinsvegar gefið í skyn að það sé um 1,9% án þess að vilja staðfesta það við samningaborðið. Greiningadeildir spá 3,4 til 3,8% verðbólgu á næsta ári. Ef rétt reynist eru þeir tilbúnir að skoða afturvirkni ef almenningur er tilbúinn að samþykkja raunvirðislækkun launa (kaupmáttarrýrnun). Með öðrum skilyrðum sem lesa má úr fréttinni eru SA að hafna því að samningur gildi frá 1. janúar,“ segir Ragnar.

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR.

Í dag fer fram annar samningafundur hjá ríkissáttasemjara í kjaradeilunni, en margir telja líklegra með hverjum deginum að verkföll og deilur séu yfirvofandi, enda beri svo mikið á milli aðila.

Halldór Benjamín bendir á, að krafan um afturvirkni byggi á norrænni fyrirmynd þar sem stéttarfélög skilgreini það sem eitt af sínum mikilvægustu hlutverkum að gera kjarasamninga sem raski ekki samkeppnisstöðu meginatvinnugreinanna.

Hvenær sýður uppúr?

Samkvæmt heimildum Viljans gætir mikillar tortryggni hjá málsaðilum í garð hvors annars. Innan raða vinnuveitenda telja menn að ekkert svigrúm sé til mikilla launahækkana, það blasi við öllum sem kynni sér hagvísa þjóðarbúsins. Þeir telja mikið af kröfum verkalýðsforystunnar snúa að pólitískum ákvörðunum stjórnvalda og með þau hafi Samtök atvinnulífsins ekkert að gera. 

Á móti telur verkalýðsforystan viðræðum sjálfhætt, ef aðeins eigi að ræða smávægilegar launahækkanir, en ekki rótttækar kerfisbreytingar. Þar á bæ eru menn alveg óhræddir við að nefna verkfallsmöguleikann. Hann verði nýttur, ef á þurfi að halda.