„Okkur í Sjálfstæðisflokknum og ég held bara ríkisstjórnarflokkunum líður alveg ágætlega þessa dagana. Við erum bara mjög sátt við ákvörðun hæstv. fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins að bregðast við áliti umboðsmanns Alþingis með þeim hætti sem hann gerir,“ sagði Jón Gunnarsson, fv. dómsmálaráðherra, á Alþingi í morgun.
Jón sagði Bjarna sýna þar virðingu fyrir þessu áliti þó að það sé vissulega umdeilt eins og hafi komið fram.
„En það er alveg með ólíkindum að fylgjast hér með stjórnarandstöðunni, vanlíðan þeirra í þessu máli sem ber þess merki hvað málefnagrundvöllur þessara flokka er grunnur. Það verða breytingar gerðar á þessari ríkisstjórn. Það liggur alveg fyrir. Það er ekki sama taugaveiklunin í því og var í tíð vinstri stjórnarinnar, eins og við munum eftir sem vorum hér á þingi á þeim tíma. Það lá á öllum hlutum og hún losaði sig við marga ráðherra á tímabilinu vegna þeirrar óeiningar sem var á þeim bæ. Við vöndum skrefin í þessu eins og öðru sem við erum að gera,“ bætti hann við.