Óhætt er að segja að tíunda Hringborð Norðurslóða, eða Arctic Circle, sem fór fram í Hörpu á dögunum hafi verið vel heppnað. Þróun alþjóðamála hefur smám saman ýtt undir mikilvægið, en til þess að setja þetta allt saman af stað á sínum þurfti framsýni og þor.
Þar kom auðvitað til sögunnar þáverandi forseti Íslands, dr. Ólafur Ragnar Grímsson.
„Ólafur Ragnar hefur unnið kraftaverk með því að gera Hringborð Norðurslóða, Arctic Circle, að langmikilvægasta vettvangi veraldar fyrir umræður og þróun hugmynda um Norðurslóðir. Þessi einstaki vettvangur sem algerlega byggist á krafti hans, tengslum, ýtni, jafnvel frekju, hefur skapað Íslandi orðstír sem er ígildi tveggja til þriggja utanríkisráðuneyta,“ segir Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, á fésbókinni.
Í tilefni tímamótanna birtir Össur mynd af sínum gamla og nýja leiðtoga á sviði Hörpu, eða „his Excellency,“ eins og hann nefnir Ólaf Ragnar í léttum dúr og bætir við: „Ég dókumentaði hina sögulegu myndatöku þar sem Ólafur Ragnar dansaði um sviðið einsog rokkstjarnan sem hann er.“