Óli Björn boðar stuðning sinn og annarra við vantraust á Svandísi Svavarsdóttur

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Með hverjum degi sem líður frá því álit Umboðsmanns Alþingis um embættisfærslu Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra í hvalveiðimálinu var birt, verður ljósara að raunveruleg hætta er á að vantraust á hana verði samþykkt í þinginu um leið og þing kemur saman eftir jólahlé. Nú síðast undirstrikar Óli Björn Kárason, þingmaður flokksins og fv. þingflokksformaður, að ráðherrann njóti ekki trausts, í vikulegri grein sinni í Morgunblaðinu í dag.

Rétt er þá að minnast þess, sem Viljinn greindi frá síðla sumars, að Óli Björn lét óvænt af formennsku í þingflokki Sjálfstæðisflokksins áður en þing kom saman í haust. Vildi hann ekki lengur standa í því að eyða kröftum sínum í að verja ríkisstjórn sem hann hefði ekki lengur trú á sjálfur og gæti sem óbreyttur þingmaður frekar tjáð hug sinn.

„Matvælaráðherra segist taka álit umboðsmanns alvarlega en ætlar að sitja sem fastast. Engu skiptir þótt lögum hafi ekki verið fylgt og meðalhófsregla brotin. Ráðherrann telur sig þvert á móti hafa breytt rétt enda lög um hvalveiðar úrelt! Eini lærdómurinn sem ráðherrann virðist draga af áliti umboðsmanns og harðri gagnrýni frá öðrum, er að beita sér fyrir því að „þessi úreltu lög séu færð til nútímans“,“ segir Óli Björn meðal annars í grein sinni í dag.

Og hann bætir við:

„Enginn – hvort sem viðkomandi er fylgjandi eða andvígur hvalveiðum – getur sætt sig við að ráðherra fari með valdheimildir sínar með þeim hætti sem matvælaráðherra hefur gert. Í frjálsu samfélagi, sem byggt er á lögum, er það ekki valkvætt fyrir ráðherra að fara að lögum, virða meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar eða stjórnarskrárbundin réttindi. Pólitísk hugmyndafræði veitir engum rétt til að víkja lögum til hliðar – hvorki ráðherra né öðrum. Við erum samfélag laga, ekki geðþótta og tilskipana.

Ekki verður séð hvernig ráðherra, sem vildir ekki gildandi lög vegna þess að hann telur þau úrelt eða þau samrýmist ekki eigin pólitískum áherslum, geti gert kröfu til þess að starfa í skjóli Sjálfstæðisflokksins. Ráðherra sem hunsar eindreginn vilja meirihluta stjórnarþingmanna nýtur hvorki trausts né trúnaðar. Aðeins pólitískir einfeldningar geta talið sér trú um annað,“ bætir hann við.