Ólíklegt að Sjálfstæðisflokkurinn sprengi af hugmyndafræðilegum ástæðum

Harðorð gagnrýni margra flokksmanna í Sjálfstæðisflokknum á stjórnarsamstarfið er afar óvenjuleg, segir Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði. Hann rifjar upp á fésbókinni í dag að Sjálfstæðisflokkur hafi verið í stjórn um 70% lýðveldistímans.

„Hann hefur setið í alls konar stjórnum og gert alls konar málamiðlanir. Margar slíkar stjórnir hafa sprungið, Nýsköpunarstjórnin (1944-47), Stefanía (1947-49), stjórn Ólafs Thors (1953-56), stjórn Þorsteins Pálssonar (1987-88), stjórn Geirs H. Haarde (2007-09), stjórn Bjarna Benediktssonar (2017).

En það hefur aldrei verið sprengt að frumkvæði Sjálfstæðisflokks. Sósíalistar sprengdu Nýsköpunarstjórnina, Framsóknarmenn Stefaníu og stjórn Ólafs Thors, Framsókn og Alþýðuflokkur stjórn Þorsteins, Samfylkingin stjórn Geirs, Björt framtíð stjórn Bjarna.

Magnús Jónson, oftast kallaður dósent, var þingmaður Sjálfstæðisflokks og sat á þingi 1921-46 fyrir Reykvíkinga. Árið 1957 kom út bók eftir hann, „Sjálfstæðisflokkurinn fyrstu 15 árin“ (1929-44). Þar segir hann eitthvað á þá leið að fyrstu 15 árin hafi flokkurinn fylgt stefnu sinni einarðlega, en síðan hafi hann neyðst til þess að slá af stefnunni til þess að hann gæti haldið fylgi sínu með þjóðinni. Þetta var „gamli, góði Sjálfstæðisflokkurinn“ eins og sumir gagnrýnendur stjórnarsamstarfsins orða það núna.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengst af verið afar stjórnsækinn og pragmatískur flokkur, tilbúinn til málamiðlana. Í tíð vinstri stjórnar Steingríms Hermannssonar (1988-91) var samningur um aðild Íslendinga að EES nánast fullbúinn. Sjálfstæðisflokkur var andvígur þeim samningaviðræðum og vildi tvíhliða samning við ESB frekar en þá aukaaðild að sambandinu sem samningurinn fól í sér. Vinstri stjórn Steingríms hélt þingmeirihluta 1991, en Jón Baldvin treysti ekki samstarfsflokkunum til þess að koma EES-samningum gegn um þingið (og á endanum greiddu Alþýðubandalag og hálfur Framsóknarflokkur atkvæði gegn samningnum). Davíð Oddsson bauð Alþýðuflokki í Viðeyjarstjórn sem myndi tryggja aðild Íslands að EES. Það gekk eftir,“ segir Ólafur ennfremur um leið og hann rifjar upp fleyg ummæli Hinriks fjórða Frakkakonungs, sem sagði á 16. öld er hann gekk af kalvínstrú sinni og gerðist kaþólskur til þess að tryggja sér konungsdóminn, að París væri nú „einnar messu virði“.

Og prófessorinn bætir þessu við:

„Það er skiljanlegt að ýmsum stefnuföstum hægri og vinstri mönnum líki það illa að Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn sitji saman í stjórn, enda hugmyndafræði flokkanna afar ólík. Í ljósi sögunnar er þó varla líklegt að Sjálfstæðisflokkur sprengi stjórnina núna – af hugmyndafræðilegum ástæðum. En það eru auðvitað nýir tímar.“