Hér fara á eftir orðaskipti Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, og Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, á Alþingi í dag um aðgerðir stjórnvalda gegn verðbólgu:
Kristrún Frostadóttir: „Forseti, á fundi Alþýðusambands Íslands og Neytendasamtakanna í síðustu viku fór menningar- og viðskiptaráðherra yfir viðbrögð ríkisstjórnarinnar við verðbólgu.
Þá sagði hún — með leyfi forseta: „Ég er á því að við höfum ekki tekið verðbólguna nógu alvarlega strax.“ Tilvitnun lýkur. Þetta eru stór orð og áfellisdómur yfir efnahagsstjórn þessarar ríkisstjórnar.
Verðbólgan er enn þrálát — þrátt fyrir miklar vaxtahækkanir. Nú er 8 prósent verðbólga og stýrivextir standa í 9,25 prósentum.
Frá því að verðbólgan fór að láta á sér kræla hafa í stórum dráttum tvær leiðir staðið til boða.
Í fyrsta lagi leið ríkisstjórnarinnar: Að bíða átekta — benda á Seðlabankann — og kalla þannig hærri vexti yfir bæði heimilin og fyrirtækin í landinu. Þetta er sú leið sem hefur verið farin hingað til — og þess vegna erum við þar sem við erum.
Hins vegar hefur staðið til boða leið Samfylkingarinnar í formi fullfjármagnaðs kjarapakka: Aukið aðhald í ríkisfjármálum til að slá á þenslu — meðal annars með hærri gjöldum á stórútgerð sem skilar nú methagnaði og arðgreiðslum — á fjármálageirann þar sem lækkun gjalda hefur ekki skilað sér til neytenda — og á tekjuhæstu hópana — og samhliða því: sértækar aðgerðir til að verja tekjulægri einstaklinga og ungt fólk fyrir verðbólgunni.
Við höfum bent á að þegar ríkisstjórnin gerir minna til að taka á verðbólgunni þá þarf seðlabankinn að gera meira. Þarna togast á ólík sjónarmið: Sértækar aðgerðir á tekjuhlið — eða hærri vextir sem leggjast flatt á alla. Og ríkisstjórnin hefur valið hærri vexti.
Nú vil ég spyrja forsætisráðherra:
1. Er hún sammála menningar- og viðskiptaráðherra um að ríkisstjórnin hafi ekki tekið verðbólguna nógu alvarlega strax?
2. Munum við sjá meira af því sama? Eða kemur til greina að fara aðra leið núna —til dæmis með kjarapakka Samfylkingarinnar?
3. Og að lokum: Er það mat ríkisstjórnarinnar að þjóðin vilji hærri vexti? Frekar en sértækar aðgerðir á tekjuhlið ríkisfjármálanna, eins og Samfylkingin hefur lagt til?
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra: „Herra forseti, ég þakka Kristrúnu Frostadóttur spurninguna. Síðasta verðbólgumæling var 8 prósent og hækkaði þá um 0,4 prósentustig, raunar af þeim ástæðum sem skýrðar hafa verið að þetta er ársverðbólga. En það er hins vegar áhyggjuefni að við sjáum til dæmis verðlag á mat og drykkjarvörum halda áfram að hækka, sem er sérstakt áhyggjuefni, tel ég vera. Það á við bæði um innlendar og innfluttar vörur og þar er að ég tel full ástæða til að skoða þessa þróun nánar.
En háttvirtur þingmaður er fremur að horfa til þess hvað ríkisstjórnin hefur gert og ég vil benda á að ríkisstjórnin hefur með sínum áætlunum verið að styðja mjög markvisst við Seðlabankann. Og Seðlabankinn tók þá mikilvægu ákvörðun í síðustu viku að hækka ekki vexti, þvert á spár flestra markaðsaðila, með þeim rökstuðningi að undirliggjandi verðbólga, þrátt fyrir nýjustu ársmælingu, hafi hjaðnað og vísbendingar séu um að dregið hafi úr tíðni verðhækkana sem séu ekki á jafnbreiðum grunni og áður.
Samkvæmt nýjustu spá Seðlabankans eru verðbólguhorfur betri en núna í vor og bankinn gerir ráð fyrir að það dragi meira úr verðbólgu á næstu mánuðum en hann gerði ráð fyrir í vor — og það er í samræmi við mat annarra greiningaraðila.
Háttvirtur þingmaður spyr hér um verðbólgunni og ég segi: Það eru allar vísbendingar í kringum okkur um að verðbólgan fari nú niður á við og það skapist forsendur fyrir að lækka vexti. Og ég er sammála háttvirtum þingmanni — þær vaxtahækkanir sem ráðist hefur verið í eru svo sannarlega farnir að bíta og þær eru mjög íþyngjandi fyrir stóra hópa fólks. Þess vegna er mjög mikilvægt að verðbólgan gangi niður. Og þess vegna hefur ríkisstjórnin kynnt aðgerðir sem miða ekki bara að því að afla aukinna tekna — til dæmis með aukinni skattheimtu á fyrirtækin í landinu; með sértækri skattheimtu til dæmis á ferðaþjónustu og fiskeldi; með aukinni gjaldtöku á samgöngur — heldur snúast þær líka um aðhald í ríkisrekstri; mikið aðhald í ríkisrekstri til að tryggja að ríkisfjármálin styðji við peningastefnuna. En horfurnar eru góðar og við munum sjá verðbólguna fara niður.“