Orkuveitan þarf að fjárfesta í innviðum en ekki greiða arð til borgarsjóðs

Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borginni.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til við borgarráð í dag að fallið verði frá arðgreiðslukröfu á
Orkuveitu Reykjavíkur og hugað verði þess í stað að nauðsynlegri uppbyggingu á innviðum. Tillaga þessa efnis var fyrst lögð fram í borgarstjórn í fyrri viku en frestað sem gerir hana um leið ótæka, þar sem aðalfundur OR verður þá um garð genginn.

Tillagan var svofelld: „Borgarstjórn samþykkir að fela borgarstjóra að falla frá arðgreiðslukröfu á Orkuveitusamstæðuna og hafna þar með arðgreiðslutillögu stjórnar OR á komandi aðalfundi 17. apríl nk. Tillaga stjórnar gerir ráð fyrir sex milljarða króna arðgreiðslu til eigenda, en fjárhæðin nemur nær öllum hagnaði samstæðunnar fyrir rekstrarárið 2023.

Tillaga stjórnar verður að teljast óábyrg á tímum orkuskorts og mikils álags á orkuinnviði landsins. Ekki síður með hliðsjón af álagi á veitukerfi og aðra innviði. Fyrirhugaðar fjárfestingar OR á árunum 2024 til 2028 munu nema um 229 milljörðum króna samkvæmt fyrirliggjandi fjárhagsáætlun. Hér er um að ræða gríðarlega fjárfestingu í mikilvægum innviðum samfélagsins. Hvorki afkoma ORsamstæðunnar né heldur kjör á fjármagnsmörkuðum gefa tilefni til að greiða svo ríflegan arð til eigenda. Ekki síst með hliðsjón af þeirri gríðarlegu innviðauppbyggingu sem fyrirhuguð er.

Jafnvel þó eigendur OR vilji njóta ávöxtunar af því fjármagni sem bundið er í rekstri samstæðunnar er eðlilegt að þau sjónarmið víki fyrir þeim mikilvægu hagsmunum sem borgarbúar eiga undir traustum innviðum samfélagsins.“