Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hefur óskað eftir umræðu um framgöngu forseta borgarstjórnar á næsta fundi forsætisnefndar Reykjavíkurvíkurborgar. Krefst hún þess að forsetinn verði ekki viðstödd fundinn.
„Ég hef óskað eftir því að rangfærslur Dóru Bjartar, forseta borgarstjórnar, um eyðingu ganga vegna Braggans verði teknar fyrir á næsta forsætisnefndarfundi. Hún hefur borið Innri endurskoðanda þungum sökum sem engin innistæða er fyrir,“ segir Vigdís.
„Augljóst er að hún þarf að víkja sem forseti borgarstjórnar á þeim fundi,“ bætir hún við.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar og oddviti Pírata, segir á fésbókinni að Píratar hafi undanfarna daga skoðað hvernig tölvupóstamálum hafi verið háttað í braggamálinu.
„Við vildum fá frekari upplýsingar um hvort mögulega væri búið að eyða tölvupóstum tengdum málinu, þó það komi ekki skýrt fram í skýrslunni, og hvort við gætum gert eitthvað til að endurheimta þá ef svo væri.
Í dag barst tölvupóstur frá Innri endurskoðanda þess efnis að í úthólf fyrrverandi skrifstofustjóra og úthólf og innhólf verkefnastjórans hafi vantað tölvupósta frá fyrri hluta verktímabilsins.
Það gæti hafa verið hluti af eðlilegri tiltekt vegna takmarkaðrar stærðar pósthólfanna, en óháð því vil ég í ljósi nýrra upplýsinga gera það sem ég get til þess að þessir tölvupóstar verði endurheimtir sé það mögulegt.
Af þessu tilefni sendu oddvitar meirihlutans sameiginlegan tölvupóst til Innri endurskoðanda og báðu hann um að halda utan um endurheimtingu tölvupóstanna. Innri endurskoðandi hefur hafist handa við vinnu við að skoða möguleikana og mun skila niðurstöðu eins fljótt og hægt er,“ segir Dóra Björt.