Pólitísk niðurlæging: Hvers vegna var Sigurður Ingi ekki hafður með í ráðum?

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ráða ráðum sínum á ráðherrabekk. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Margt forvitnilegt hefur komið fram í stórtíðindum dagsins í stjórnmálunum, en sérstaka athygli hefur vakið að svo virðist sem formaður Framsóknarflokksins hafi fylgst með afsögn fjármálaráðherrans á blaðamannafundi í beinni útsendingu.

Bjarni Benediktsson sagði á blaðamannafundi sínum í morgun að hann hefði þegar tilkynnt forsætisráðherra um ákvörðun sína. Það er enda sjálfsagt og eðlilegt. Forsætisráðherrann hefur einmitt sagt í viðtölum að þau Bjarni hafi átt samtöl um þetta í aðdraganda ákvörðunarinnar, eins og „samstarfsmenn gera“.

Það var og. En er ekki Sigurður Ingi líka samstarfsmaður? Og er hann ekki formaður þriðja stjórnarflokksins? Er ekki töluverð pólitísk niðurlæging fólgin í því að á engum tímapunkti hafi ástæða verið talin til að hafa hann með í ráðum? Já eða bara láta hann vita, að það stæði svolítið til? Eða var ákvörðun Bjarna tekin í slíkri skyndingu? Varla er talið að Sigurði Inga sé ekki treystandi fyrir leyndarmálum?

Framsóknarmenn hljóta að vera vægast sagt ansi hugsi eftir atburði dagsins…