Ráðherra gagnrýnir ráðherra: „Sérstakt að búin séu til úrræði fyrir fólk sem brýtur lög“

Stjórnleysið í ríkisstjórninni í málefnum hælisleitenda heldur áfram, nú með gagnrýni Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra á þá ákvörðun Guðmundar Inga Guðbrandssonar félagsmálaráðherra að semja við Rauða krossinn um neyðaraðstoð við þá sem fengið hafa synjun um alþjóðlega vernd og eiga að yfirgefa landið.

Þá hefur ráðuneytið gert breytingar á reglum um endurgreiðslur til sveitarfélaga vegna áðurnefndra einstaklinga. Með breytingunum er skýrt hvað kemur til endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna aðstoðar sveitarfélaga við fólkið. Ráðherra hefur sent tilmæli til félagsþjónustu sveitarfélaganna vegna breytinganna. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sömuleiðis verið upplýst, að því er segir í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu.

Morgunblaðið leitar í dag eftir viðbrögðum Guðrúnar við ákvörðun starfsbróður hennar í ríkisstjórninni og er spurð hvort þetta samræmist þeim breytingum sem gerð voru á útlendingalögunum sl. vor. Hún svarar því óbeint með því að samþykkt laganna hafi markað „skýra stefnu“. „Hún er sú að þegar fólk hefur fengið synjun um vernd hér á landi og farið gegnum tvö stjórnsýslustig og kærunefnd staðfest synjun hefur það ekki lengur stöðu flóttamanns. Þær forsendur sem viðkomandi lagði til grundvallar umsókn sinni stóðust ekki og þar af leiðandi ber fólki að fara frá landinu enda í ólögmætri dvöl. Þeir sem hlíta ekki íslenskum lögum eru að brjóta lög,“ segir hún.

Dómsmálaráðherra bætir við að hún sjái enga aðra lausn en þá að vera með lokuð búsetuúrræði fyrir þennan hóp, eða það sem erlendis teljast vera flóttamannabúðir.

„Þessu fólki ber að yfirgefa landið og það er sérstakt að búin séu til úrræði fyrir fólk sem er að brjóta lög. Þeir sem vilja vinna með stjórnvöldum fá aðstoð,“ segir dómsmálaráðherra ennfremur.