Ríkisstjórnin ætlar að kasta 5 þúsund heimilum út úr vaxtabótakerfinu og lækka stuðning við skuldsett heimili um 700 milljónir króna milli ára, sagði Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag.
„Ég ætla að segja þetta aftur af því að þetta skiptir máli, af því ég vil að allur þingheimur viti þetta og hafi þetta í huga þegar fjárlögin verða afgreidd hérna í desember. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætlar að kasta 5 þúsund heimilum út úr vaxtabótakerfinu og lækka stuðning við skuldsett heimili, sérstaklega heimili með lágar tekjur og þunga greiðslubyrði, um 700 milljónir króna milli ára,“ sagði þingmaðurinn og benti á að vextir færu upp, greiðslubyrði heimilanna sömuleiðis en stuðningur ríkisstjórnarinnar færi niður á sama tíma.
„Niður niður niður. Fleiri og fleiri heimili í basli. Færri og færri heimili sem fá stuðning. Það er leið ríkisstjórnarinnar. Ráðherrar geta drekkt okkur í alls konar orðasalati og frösum og glærusýningum, en það breytir ekki því að þetta er sú stefna sem hér er rekin. Ríkisstjórnarflokkarnir finna nefnilega alltaf leið til að demba aðhaldinu í ríkisfjármálum á lágtekju- og millitekjuheimili en hlífa þeim efnamestu,“ bætti Jóhann Páll við og sagði markmið Samfylkingarinnar vera að reka ríkisstjórnina til baka með þessa „glórulausu stefnu“.