Rándýrt holl í Grafarholti

Veðrið hefur leikið við landsmenn að undanförnu og margir hafa nýtt sér kærkomið tækifæri til útivistar í góðum félagsskap.

Óhætt er að segja, að rándýrt holl hafi verið komið saman í golfi á Grafarholtsvelli í gær, þar sem voru fjórir fyrrverandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins og áberandi forystumenn í íslensku þjóðlífi um áratugaskeið.

Þarna voru komnir saman Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fv. borgarstjóri, þingmaður og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga um árabil, Friðrik Sophusson, fv. varaformaður Sjálfstæðisflokksins, þingmaður og fjármálaráðherra, forstjóri Landsvirkjunar og nú formaður bankaráðs Íslandsbanka, sr. Hjálmar Jónsson, fv. þingmaður og dómkirkjuprestur og Þorsteinn Pálsson, fv. formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra og ritstjóri Fréttablaðsins og Vísis, svo eitthvað sé nefnt.

Þorsteinn hefur nú gengið til liðs við Viðreisn, en hinir þrír halda enn allir tryggð við Sjálfstæðisflokkinn. Hvort illdeilur innan flokksins eða átök um þriðja orkupakkann hafa borið á góma í gær, skal ósagt látið en golf er frábær skemmtun í góðra vina hópi og veðurblíðu.