„Tjaldbúðunum á Austurvelli er ekki ætlað að móðga nokkurn eða ráðast að neinum; þær eru tákn um von og samkennd. Ekkert þess fólks sem hingað er komið dreymir að leggjast upp á íslenska kerfið. Það dreymir um að nýta menntun sína, koma börnum sínum í skjól og það dreymir um frið. Þau sem hingað eru komin frá Palestínu hafa margt fram að færa fyrir íslenskt samfélag og ég er sannfærð um að hver sú manneskja sem gefur sér tíma til að setjast niður með einhverju þeirra muni sjá það.“
Þetta segir Karen Kjartansdóttir, ráðgjafi og fv. framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, í aðsendri grein á Vísi í dag, en þar bregst hún við ummælum Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra á fésbókinni sl. föstudagskvöld, þar sem hann kallaði tjaldborgina „hörmung“ og boðaði hertar aðgerðir á landamærunum varðandi hælisleitendur og auknar heimildir lögreglu til að bregðast við skipulagðri glæpastarfsemi.
Karen segir að mikil ólga sé nú í heiminum sem og íslensku samfélagi um þessar mundir og auðvelt að sundra fólki með reiði. „En ég hef trú á íslensku samfélagi og tel að samhjálp og mannúð séu grunngildi þess. Við styðjum hvort annað og þau sem þurfa á því að halda og sköpum saman sterkt bakland. Höldum þessi gildi í heiðri því þau eru það sem gerir samfélagið okkar að góðum stað og þau falla aldrei úr gildi,“ bætir hún við.
Hún segist vilja reyna að fyllast ekki sorg eða reiði yfir ummælum utanríkisráðherra, heldur veltir því fyrir sér hvernig hægt sé að höfða til samkenndar á milli fólks sem greinir á.
„Mig langar til að trúa því að það hafi ekki vakað fyrir Bjarna Benediktssyni að skapa sundrungu og espa grimmd í hjörtum fólks gagnvart saklausu fólki. Mig langar til að trúa því að við getum undið ofan af þeirri skautun sem nú má greina í íslensku samfélagi. Mig langar að trúa því að við séum saman í liði,“ bætir hún við.