„Það er áhugavert fyrir undirritaðan – sem stjórnmálasagnfræðing, stjórnmálaskýranda til margra ára og fyrrverandi alþingismann – að gaumgæfa hvernig gat orðið sá eðlismunur, sem raunin er, á þeim tveimur ríkisstjórnum sem Katrín Jakobsdóttir hefur myndað; sem þó eru skipaðar sömu flokkum og mestmegnis sömu ráðherrum,“ segir Páll Magnússon fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og útvarpsstjóri í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag, þar sem hann tekur undir með leiðarahöfundum blaðsins sem sögðu í forystugrein á dögunum að helsti vandi ríkisstjórnarinnar væri að hana skorti erindi.
„Ástæðan er í hnotskurn þessi: Þegar fyrri ríkisstjórn Katrínar var mynduð 2017 átti hún sér það yfirgrípandi erindi að koma á pólitískum stöðugleika í landinu – eftir mörg ár af umróti, stjórnarslitum, upphlaupum og tætingi. Þessi pólitíski glundroði var líka orðinn að sjálfstæðu efnahagslegu vandamáli. Þetta mikilvæga erindi var t.d. meginástæða þess að þingflokkur sjálfstæðismanna (þ.m.t. undirritaður) var samþykkur þessari að mörgu leyti órökréttu stjórnarmyndun. Hefðbundnum ágreiningsmálum flokkanna var einfaldlega ýtt til hliðar. Í skjól.
Og það má staðhæfa að ríkisstjórninni hafi tekist þetta ætlunarverk sitt hratt og vel í öllum meginatriðum. Um mitt kjörtímabilið var kominn á stöðugleiki; lífskjarasamningarnir tóku gildi, góðu jafnvægi náð í ríkisfjármálin og almenn velsæld í landinu. Þá fóru líka aðeins að dúkka upp ágreiningsmál sem haldið hafði verið til hliðar fram að því. Það kom þó ekki að sök fyrir ríkisstjórnarsamstarfið því nú brast á annað yfirgrípandi erindi – baráttan við covid – og aftur hurfu ágreiningsmálin út í skuggann og voru þar út kjörtímabilið.
Stjórnarmyndun „af því bara“
Seinni ríkisstjórn þessara flokka sem mynduð var 2021 – núverandi stjórn – á sér hins vegar ekkert slíkt yfirgrípandi erindi eða tilgang. Hún var eiginlega ekki mynduð um neitt. Hún varð bara til af því að það var hægt að mynda hana; af því bara. Þegar lesnar eru saman niðurstöður flokksráðsfunda VG og Sjálfstæðisflokksins nýverið – og umræður um stefnuræðu forsætisráðherra á dögunum – kemur þetta berlega í ljós: ríkisstjórnin á ekkert sameiginlegt erindi við þjóðina. Einstakir ráðherrar eru auðvitað að bauka eitthvað í sínum málum, hver á sinni skrifstofu, en það er líka allt og sumt. Og þess vegna eiga ágreiningsmálin sér ekkert skjól í einhverjum „æðri“ tilgangi lengur. Þau dúkka bara upp – eitt af öðru – og standa berskjölduð fyrir allra augum. Varla hægt að ná samstöðu um neitt nema kyrrstöðu.
Og nú eru heldur engin rök eða réttlæting fyrir stjórnarflokkana að víkja hefðbundnum grunngildum sínum til hliðar; það er ekkert yfirgrípandi markmið sem trompar þau lengur. Þetta er stórt vandamál fyrir Sjálfstæðisflokkinn og VG en minna fyrir Framsókn. Endalausar málamiðlanir VG og Sjálfstæðisflokksins lenda hvort sem er flestum málum í námunda við það sem Framsókn getur sætt sig við.
Með svolítið dramatískri myndlíkingu mætti segja að Sjálfstæðisflokkur og VG hafi þurft að „málamiðla“ sig svo lengi, eða lúta neitunarvaldi hvor annars svo oft, að akkerisfestarnar við grunngildi þessara flokka hafi slitnað. Þeir séu nú í augum margra stuðningsmanna sinna reikulir „… sem rótlaust þangið“. Þetta sést líka á fylginu, sem mælist nú í sögulegu lágmarki hjá báðum flokkum.
Staða Sjálfstæðisflokksins
Ef við lítum sérstaklega á stöðu Sjálfstæðisflokksins í þessu samhengi er auðvelt að rökstyðja þá staðhæfingu að hún hafi líklega aldrei, í rúmlega 90 ára sögu flokksins, verið verri en einmitt núna. Í síðustu borgarstjórnarkosningum fékk Sjálfstæðisflokkurinn minnsta fylgi sem hann hefur fengið frá stofnun. Í síðustu alþingiskosningum fékk flokkurinn næstminnsta fylgi frá stofnun – og missti forystuhlutverkið í tveimur af þremur landsbyggðarkjördæmum. Raunar munaði innan við hundrað atkvæðum á að flokkurinn missti forystuna í þeim öllum. Í öllum könnunum um langt skeið hefur flokkurinn verið botnfastur í kringum 20% fylgi og Samfylkingin mælist ítrekað miklu stærri. Og það sem kannski er enn alvarlegra fyrir Sjálfstæðisflokkinn er að Samfylkingin hefur mælst stærri í öllum kjördæmum landsins; líka í Suðvesturkjördæmi þar sem menn töldu ekki unnt að hagga forystuhlutverki flokksins. (Könnunarfyrirtæki birta ekki opinberlega niðurbrot á einstök kjördæmi því þær niðurstöður eru ekki tölfræðilega marktækar fyrir minnstu kjördæmin.)
Ef litið er á stöðu þeirra málefna sem flokkurinn ber helst fyrir brjósti þessi misserin þá er hún þessi: Umsvif hins opinbera halda áfram að þenjast út og með fjárlögum yfirstandandi árs var sett nýtt Íslandsmet í aukningu ríkisútgjalda milli ára; málefni hælisleitenda eru áfram í fullkomnum ólestri og útgjaldaaukningin í þessum málaflokki stjórnlaus; eina virkjunin sem komin var á framkvæmdastig, Hvammsvirkjun, var stöðvuð í sumar því aðdragandinn samræmdist ekki tilskipun Evrópusambandsins. Sjálfstæðisflokkurinn er einhvern veginn búinn að láta vefja sér inn í þá óskiljanlegu þversögn VG að tala í síbylju um orkuskipti – en það má samt ekkert virkja til að hægt sé að skipta um orku.
Öll þessi mál eiga það sameiginlegt að vera formlega á forræði ráðherra Sjálfstæðisflokksins en lúta í reynd neitunarvaldi VG.
Glatast forystuhlutverkið?
Ofan á þetta bætist að utanríkisráðherra hefur ákveðið að endurflytja frumvarp sitt um Bókun 35, sem er gríðarlega umdeilt meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins. Mörgum þeirra finnst beinlínis átakanlegt að varaformaður flokksins flytji mál af þessu tagi.
Að öllu samanlögðu – og hér hefur aðeins verið stiklað á stóru – virðist blasa við að Sjálfstæðisflokkurinn hafi varla annað uppúr krafsinu í þessu ríkisstjórnarsamstarfi en að glata forystuhlutverki sínu í íslenskum stjórnmálum,“ segir Páll Magnússon ennfremur.