Ríkisstjórn kyrrstöðu og íhaldssemi: Stefna sem má kenna við heljarþröm

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar.

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að jafnaðarmönnum þyki sem tækifærin hafi ekki verið nægilega vel nýtt á toppi hagsveiflunnar. Fólk með lágar tekjur og millitekjufólk hafi ekki fengið notið þessa góðæris, og ekki heldur sá mikli fjöldi aðkomufólks, með sínar vinnufúsu hendur, sem skipt hafi sköpum fyrir þann efnahagslega uppgang sem hér hefur verið á flestum sviðum.

Þetta kom fram í almennum stjórnmálaumræðum við upphaf þingfundar í dag, þar sem forystumenn flokkanna gerðu grein fyrir áherslum sinna flokka. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, er erlendis í opinberum erindagjörðum og því kom það hlut Guðmundar Andra að tala fyrir flokksins hönd í umræðum dagsins.

Hann vakti athygli á því sem kallaði aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í ótal brýnum úrlausnarmálum.

„Hún hefur verið þeim mun duglegri við að búa til aðgerðaáætlanir og mynda starfshópa um aðgerðaáætlanir. Því að þetta er ríkisstjórn sem mynduð er til viðhalds ríkjandi ástandi, sjálf kalla þau það stöðugleika. Þetta er ríkisstjórn íhaldssemi og kyrrstöðu, ríkisstjórn sem vill varðveislu um hagsmuni og kerfi sem hafa verið þróuð og langræktuð af stærsta flokknum í þessari stjórn, Sjálfstæðisflokknum,“ sagði hann.

„Forsætisráðherra og fjármálaráðherra tala gjarnan um að þau séu að sigla lygnan sjó, hafi komið hér á þeim stöðugleika sem landsmenn hafi löngum beðið eftir. En sú lognmolla sem ráðherrarnir lofsyngja gæti reynst vera svikalogn,“ sagði Guðmundur Andri og bætti við, að stefnu stjórnvalda mætti kenna við heljarþrömina – að halda öllu og öllum á heljarþröm, þannig að reksturinn sé ævinlega í járnum og aldrei hægt að búa í haginn eða leggja til hliðar.

Öryrkjar skulu alltaf vera á heljarþröminni

„Stofnanir eru alltaf á heljarþröm í reksti sínum – jafnt skólar sem sjúkrahús. Öryrkjar skulu alltaf vera á heljarþröminni; leyfi þeir sér að afla sér tekna eru bætur snarlega lækkaðar til samræmis svo að tryggt sé að viðkomandi nái aldrei alveg að búa við sómasamleg kjör heldur sé á hinni eftirsóknarverðu heljarþröm. Hið sama gildir um gamalt fólk sem er svo ósvífið að afla sér tekna á vinnumarkaði. Ellilífeyrinn er snarlega skorinn niður, svo að það haldist áreiðanlega á heljarþröm.

Fjölskyldufólk er svo sannarlega salt jarðar og undirstaðan í farsælu samfélagi en stundum er eins og allt samfélagið sé sett á herðarnar á því fólki á sama tíma og það ætti að vera að einbeita sér að því að ala börnin sín upp. Barnafólk þarf að vinna hörðum höndum til að hafa í sig og á og standa undir stórfelldum kostnaði við þau lágmarksmannréttindi að hafa þak yfir höfuðið, eiga heimili; það þarf að borga námslánin; það þarf að borga matinn sem er óhóflega dýr hér vegna krónu og vöruverndar; það þarf að borga virðisaukaskattinn á nauðsynjavörur; það þarf að borga tómstundastarfið og heimsóknir til lækna og skóladótið og allt hitt sem fylgir blessuðum börnunum; það þarf að borga lánin af bílunum til að komast á milli með börnin og sig; það er kannski líka á ótryggasta leigumarkaði Evrópu og þarf að rífa sig og sína upp á fardögum með nýjum áskorunum; hjá einmitt þessu fólki þykir ástæða til að barnabæturnar séu skertar ef það dirfist til að afla sér tekna sem gætu komið því spölkorn frá heljarþröminni. Og nái áform ríkisstjórnarinnar fram að ganga þarf þetta fólk brátt að borga vegaskatta milli bæjarhluta til að byggja upp ónýtt vegakerfi landsins,“ sagði þingmaðurinn ennfremur.