Samfylking segir braggamáli lokið en vill rannsaka orð drukkins þingmanns frekar

Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingar, vill rannsóknarnefnd um ummæli þingmanna á Klausturbar um sendiherraskipan. Þar sat m.a. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins.

Á sama tíma og samfylkingarfólkið í borgarstjórn vill gera sem minnst úr botnlausum fjáraustri í braggann í Nauthólsvík, hamrar endalaust á því að „braggamálinu sé lokið“ og telur „ljótt“ að krefjast frekari rannsóknar á brotum á reglum um stjórnsýslu og skjalameðferð beitir samfylkingarþingmaður öllum tiltækum ráðum sem nefndarformaður til að halda áfram rannsókn á orðum drukkins þingmanns sem dreymir um að verða sendiherra.

Þetta skrifar Björn Bjarnason fv. ráðherra á heimasíðu sína í dag.

Björn Bjarnason fv. ráðherra.

„Næsta skref á alþingi vegna drykkjufundarins er að breyta þingsköpum. Þingmenn sem ekki eru taldir vanhæfir verða að fjalla um hvort vísa skuli til siðanefndar alþingis að leggja mat á framkomu þeirra sem sátu fundinn,“ segir Björn og veltir fyrir sér hvort Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hafi gert fyrirhugaða viðbótar-forsætisnefnd Alþingis vanhæfa með þeim orðum sínum að mikilvægt sé að mál Klausturþingmannanna geti gengið rétta boðleið til siðanefndar.

„Innan forsætisnefndar á forseti alþingis lokaorðið. Líklega þurfa lögspekingar þingsins að velta fyrir sér hvort ekki verði að kjósa nýjan þingforseta svo að unnt sé að ljúka þessu máli í forsætisnefnd á viðunandi hátt,“ segir Björn Bjarnason.