Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Angela Merkel Þýskalandskanslari voru í þýsku borginni Aachen þriðjudaginn 22. janúar og rituðu undir nýjan vináttusáttmála sem ætlað er að dýpka enn frekar vinsamleg samskipti þjóða þeirra. Koma sambandi þeirra á „nýtt stig“ og auka lífsgæði þeirra sem í löndunum búa.
Upphaflegur vináttusáttmáli þjóðanna er frá 22. janúar 1963. Þá rituðu Charles de Gaulle Frakklandsforseti og Konrad Adenauer Þýskalandskanslari undir sáttmála sem kenndur er við Elysée og staðfesti sáttargjörð þjóðanna eftir síðari heimsstyrjöldina. Síðan hafa ákvæði verði tengd við þennan sáttmála en nú hefur hann verið „uppfærður“.
Að velja Aachen sem stað til að undirrita sáttmálann er táknrænt. Þar var Karlamagnús krýndur keisari af páfa árið 800 og til varð Heilaga rómverska keisaradæmið sem stóð að nafninu til fram til ársins 1806 þegar Napóleón herjaði í Evrópu. Aachen var einnig fyrsta þýska borgin sem Bandaríkjamenn náðu á sitt vald árið 1944 þegar þeir sóttu gegn Hitler.
Ekki er hróflað við grundvallarákvæðum Elysée-sáttmálans sem snúast um samstarfsleiðir þjóðanna. Í nýja textanum er finna lýsingar á pólitískum áformum meðal annars um breytingar á ESB. Þá er litið á samstarf ráðamanna þjóðanna sem lið í varðstöðu þeirra gegn sókn uppnáms- og þjóðernisflokka víða um Evrópu og í löndum þeirra sjálfra.
Skjalið sjálft er 16 bls. Í því er mælt fyrir um samstarfsverkefni sem ná til almennra borgara og aukið samstarf á sviði evrópskra utanríkis- og öryggismála. Þá er ætlunin að efla efnahagslega samvinnu og þar á meðal í umhverfis- og loftslagsmálum. Málefni flóttamanna eru ekki nefnd sérstaklega.
Þjóðverjar eru nú þegar helsta viðskiptaþjóð Frakka en nú er ætlunin að koma á fransk-þýsku efnahagssvæði með því að draga úr opinberri skriffinnsku vegna verslunar- og viðskipta.
Í uppfærða textanum er sérstaklega vikið að fransk-þýskri samvinnu í varnarmálum og í baráttunni gegn hryðjuverkum. Að sumu leyti er þar um staðfestingu á því sem þegar er orðið. Fransk-þýska stórfylkið var myndað árið 1989. Undanfarin ár hefur athyglin þó beinst að öðru og endurspeglast það í texta sáttmálans.
Greinilegur munur hefur verið á afstöðu franskra og þýskra stjórnvalda til hernaðaraðgerða. Frakkar taka skjótar ákvarðanir um vopnaða íhlutun en Þjóðverjar halda aftur af sér á því sviði. Í textanum nú er vikið að aðstoð, þar á meðal, hernaðarlegri, „komi til vopnaðrar árásar“ á annað hvort landið.
Í sáttmálanum er einnig getið um aðild þjóðanna að NATO. Áherslan á þann þátt varnarsamstarfs þjóðanna er í raun áminning um að evrópskur herafli kemur ekki í stað hernaðarlegs samstarfs við Bandaríkjamenn. Bandarískur herforingi stjórnar áfram Evrópuherstjórn NATO í Mons í Belgíu.
Fréttaskýrendur benda á að sáttmálinn sé undirritaður af stjórnmálamönnum sem skorti umboð til pólitískra stórræða um þessar mundir. Angela Merkel er ekki lengur leiðtogi flokks síns, hún er kanslari á útleið. Emmanuel Macron á fullt í fangi með vandræði á heimavelli. Hann hefur stofnað til „þjóðarumræðu“ í von um að sefa reiði almennings sem birtist í mótmælum gulvestunga sem hafa nú látið til sín taka í mótmælum í París og víðar 10 helgar í röð.
Andstæðingar Macrons til vinstri og hægri saka hann um að gæta ekki hagsmuna Frakklands af nægilegri festu gagnvart Þjóðverjum. Dreift er lygafréttum og samsæriskenningum um að Macron ætli til dæmis að afsala Frökkum ráðum yfir landamærahéruðunum Alsace og Lorraine (Elsass og Lothringen) sem Þjóðverjar innlimuðu að hluta árið 1871. Þeim var aftur skilað í hendur Frakka eftir fyrri heimsstyrjöldina.
Þá hefur þeim orðrómi verið komið á kreik að Frakkar ætli að deila föstu sæti sínu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna með Þjóðverjum. Marine Le Pen, leiðtogi franskra þjóðernissinna, segir að þetta sýni að Macron ætli „afsala valdi lands okkar“.
Af vardberg.is, birt með leyfi.