Segir að Svandís hafi misnotað völd sín sem umhverfisráðherra

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra, gagnrýndi Vinstri græna og Svandísi Svavarsdóttur harðlega í umræðum um raforkulög á Alþingi í gær. Undirstrikar ræða Jóns þá djúpu gjá sem er milli stjórnarflokkanna þegar kemur að nýtingu náttúruauðlinda og sýnir hvernig Ísland er að missa forystuhlutverk sitt með öflun endurnýjanlegrar orku.

Atvinnuveganefnd Alþingis hefur lagt fram frumvarp til laga, þar sem bráðabirgðaákvæði er skeytt við gildandi raforkulög, svohljóðandi: „Til að tryggja raforkuöryggi notenda raforku, annarra en stórnotenda, ber markaðsráðandi vinnslufyrirtæki að tryggja framboð forgangsraforku á heildsölumarkaði til notenda, annarra en stórnotenda, sem nemur því magni sem vinnslufyrirtækið seldi á heildsölumarkaði á árinu á undan. Magn forgangsraforku skal leiðrétta árlega miðað við þróun almenns markaðar samkvæmt spá Orkustofnunar og á flutningstöpum. Markaðsráðandi vinnslufyrirtæki er þó heimilt að ráðstafa magni forgangsraforku samkvæmt ákvæði þessu, sem er umfram eftirspurn á heildsölumarkaði með öðrum hætti.“

Eldræða stjórnarþingmanns og fv. ráðherra

Óhætt er að segja að ræða Jóns Gunnarssonar í umræðum um frumvarpið, sæti miklum tíðindum. Hann spurði hvernig það mætti vera að við Íslendingar væru komin á þennan stað í orkumálum, þessi þjóð sem hefði meiri tækifæri en nokkur önnur þjóð í nýtingu á grænni orku. Hvernig stæði eiginlega á því að leggja þyrfti fram neyðarfrumvarp til að verja hagsmuni heimilanna, fjölskyldna í landinu og lítilla fyrirtækja; hornsteina samfélagsins.

Benti Jón á að þannig sé komið, að oft þurfi að keyra töluvert af díselvélum hér á landi til raforkuframleiðslu með tilheyrandi kostnaði og kolefnisspori. Rifjaði hann upp að á sínum tíma hafi náðst mikil samstaða í þinginu um lög um rammaáætlun. Hafi þau verið samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Tekist hafi víðtæk sátt um þessi erfiðu deiluefni og góður hugur verið á þingi um að skerpa áherslur og leggja niður deilur um virkjanir eftir að átökin um Kárahnjúkavirkjun á Austurlandi.

Verkefnisstjórn undir forystu Svanfríðar Jónasdóttur, fv. þingmanns, hafi sett fram vandaðar tillögur um þá kosti til vatnsaflsvirkjana sem þóttu álitlegastir með tilliti til nýtingar og hefðu minnst áhrif með tilliti til verndar og umhverfissjónarmiða. Tók hann nokkur dæmi um niðurstöður verkefnisstjórnarinnar, t.d. um að fyrsta áfanga Holtavirkjunar hefði átt að ljúka árið 2016, fyrsta áfanga Hvammsvirkjunar árið 2015, Skrokkölduvirkjun 2018, Urriðafossvirkjun 2016 og gangsetning fyrsta áfanga Kjalölduveitu (áður Norðlingaölduveitu) hefði átt að vera árið 2014, samkvæmt áætlunum verkefnisstjórnarinnar sem samstaða var um í þinginu.

„Þetta voru væntingarnar sem fylgdu fyrstu rammaáætluninni, þannig var tímaferlið sem menn sáu fyrir sér, hversu langan tíma þessi mál myndu taka. Nú er árinu 2023 að ljúka og við erum ekki komin lengra. Af hverju gerist þetta, þegar væntingar þingmanna voru með allt öðrum hætti þegar farið var af stað?,“ sagði Jón og benti á að ekki hefði þurft nema nokkra af þeim kostum sem þarna áttu að fara í framkvæmd, til að staða Íslendinga í orkumálum væri allt önnur og betri en raun ber vitni nú.

„Hvernig gat þetta gerst?“

„Hvernig gat þetta gerst?“ spurði Jón og beindi þá spjótum sínum að Vinstri grænum sérstaklega. Sakaði hann Svandísi Svavarsdóttur um að hafa sem umhverfisráðherra misnotað lagaákvæði til þess að rjúfa sáttina um rammaáætlun og koma fyrir allskyns hindrunum sem leitt hefði til þess að lítið sem ekkert hafi verið virkjað í landinu um langt árabil.

Þessu hafi margir þingmenn mótmælt, þar á meðal hann og fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins og reynt í atvinnuveganefnd á árunum 2013-2016 að koma aftur með tillögur um fjölgun í nýtingarflokki. Þá hafi Vinstri græn, Samfylking, Björt framtíð og Píratar brugðist ókvæða við og sagt frið um náttúruvernd slitinn í sundur og ríkisstjórnin orðið að hörfa með málið.

„Ég varaði við því árið 2015 að sú sviðsmynd gæti komið upp að landið yrði orkulaust, sem nú er að rætast“ sagði Jón og sagði þingmenn Vinstri grænna hafa gert lítið úr slíku tali. Fyrir vikið þyrfti nú að grípa til neyðarráðstafana til að tryggja orkuöryggi, mörg tækifæri til atvinnusköpunar og uppbyggingar hefðu runnið landsmönnum úr greipum á undanförnum árum, þar sem ekki væri til næg orka víða um land til að hefja nýjan rekstur og ekkert væri gert með aðvörunarorð orkufyrirtækja eða Íslandsstofu. Þarna hafi tapast tækifæri fyrir framtíðarkynslóðir og skortur nú á grænni orku væri minnisvarði um þá sem tali hæst um loftslagsmál og orkuskipti, en berjist um leið gegn orkuöflun á umhverfisvænan hátt. .