Segir allar kannanir segja sömu sögu: „Ákall um kosningar“

„Það þarf tæpast frekari vitna við; allar kannanir í 10 mánuði segja það sama: Það er verið að kalla jafnaðarmenn til verka og ríkisstjórnarflokkarnir fá falleinkunn,“ segir Guðmundur Árni Stefánsson, bæjarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar, á fésbókinni þar sem hann bregst við nýjum Þjóðarpúlsi Gallup sem birtur var í gærkvöldi og sýnir sterka stöðu Samfylkingarinnar.

Skjáskot úr fréttum RÚV í gær.

Athygli vekur í könnuninni að Miðflokkurinn sækir í sig veðrið, er orðinn fjórði stærsti flokkurinn og mælist stærri en Framsóknarflokkurinn. Flokkur fólksins þokast líka upp á við, Sósíalistar eru mjög nærri því að ná manni inn, en almennt má segja að breytingar á fylgi flokkanna séu litlar og flokksráðsfundir VG og Sjálfstæðisflokks hafi ekki náð að rífa fylgið upp, eins og vonir stóðu líklega til.

„Þetta er ákall almennings um kosningar, en límið í ráðherrastólum, Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna er sterkt, sem og óttinn við dóm kjósenda. En dropinn holar steininn,“ bætir Guðmundur Árni við.