„Það er einstakt á heimsvísu að fimm fullvalda ríki taki sig saman um að reka sendiráð undir sama þaki og ef til vill er þetta eitt skýrasta dæmið um þau traustu vináttubönd sem binda Norðurlöndin saman. Sem ein heild stöndum við afar sterk á alþjóðavettvangi en um leið viðurkennum við sérkenni hvers annars. Þessi staðreynd kristallast einmitt í óopinberu slagorði sendiráðanna hér: Hvert fyrir sig en þó saman.“
Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra við setningu 20 ára afmælishátíðar sendiráðaklasa Norðurlandanna í Berlín í morgun, og vísaði þar þar til kjörorðanna Jeder für sich und doch gemeinsam.
Af þessu tilefni sóttu allir utanríkisráðherrar Norðurlanda hátíðardagskrá og þar sem Ísland fer nú með formennsku í norrænu samstarfi, kom það í hlut utanríkisráðherra að setja afmælishátíðina. Frá þessu segir á vef Stjórnarráðsins.
Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, afhenti við þetta tækifæri gjöf þýskra stjórnvalda til Norðurlandanna, fuglakirsuberjatré sem verður gróðursett á lóð sendiráðanna vestan við koparband sendiráðsbygginganna.
Öryggis- og varnarsamvinna Evrópu og Bandaríkjanna rædd
Utanríkisráðherrar Norðurlandanna áttu því næst fund í menningarmiðstöð sendiráðanna í Berlín, ásamt Michael Roth, aðstoðarutanríkisráðherra í þýsku ríkisstjórninni. Á dagskránni voru mál sem eru efst á baugi á alþjóðavettvangi um þessar mundir. Hernaðaraðgerðir tyrkneskra stjórnvalda í Sýrlandi auk samvinnu Evrópu og Bandaríkjanna á sviði varnar- og öryggismála.
Á morgun verður efnt til málþings þar sem „bláa hagkerfið“ er í brennidepli, með þátttöku sérfræðinga frá öllum Norðurlöndunum og Þýskalandi auk fulltrúa Norrænu ráðherranefndarinnar.