„Í dag eru liðin slétt tvö ár frá Alþingiskosningum. Í þeim vann Framsókn frækinn kosningasigur sem skilaði flokknum 13 þingmönnum og tryggði áframhaldandi stjórnarsamstarf Framsóknar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Sjálfstæðisflokks. Á þeim sex árum sem liðin eru hefur mikið mætt á íslensku samfélagi en um leið hefur mikið áunnist,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra, í grein sem birtist í dag á Vísi og heimasíðu Framsóknarflokksins.
„Þrátt fyrir að ég hafi síðustu vikur þurft að fara mér hægt vegna aðgerðar sem ég gekkst undir í byrjun mánaðarins hef ég ekki farið varhluta af umræðunni í samfélaginu. Ég finn áhyggjur fólks aukast af afkomu sinni vegna hárrar verðbólgu. Hún er stærsta áhyggjuefnið og stærsta verkefnið sem samfélagið tekst á við þessi misserin. Til að verðbólgan verði kveðin í kútinn þá er ekkert annað í boði en að við stöndum saman,“ bætir formaðurinn við og segir að því miður séu engar töfralausnir til sem lækki verðbólgu bara sisona.
Seinni hálfleikur er eftir
„Agi og samstaða eru lykilþættir í þeirri baráttu. Þegar stjórnmálin standa frammi fyrir erfiðum áskorunum eiga sumir það til að flýja ábyrgð sína og byrja að hrópa á torgum um hin og þessi málefni sem þeir telja geta gefið þeim fleiri like og jafnvel prósentustig í könnunum. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að ríkisstjórnarflokkarnir hafa misst fylgi á síðustu mánuðum. Því fylgir oft titringur eins og fólk hefur tekið eftir. Einstaka stjórnmálamenn og flokkar fara þá ókyrrast og ýfa fjaðrirnar, pota í aðra, stíga á tær, allt til að skapa um sig umtal. Sumir leita uppi leðju til að sletta og polla til að hræra upp í til að skapa ótta, óþol og öfund með von um að þeir sjálfir komist í sviðsljósið. En örvænting fer engum vel. Nær væri að fólk myndi setjast niður og hugsa hvernig best sé að skapa almenna samstöðu um framtíðarsýn og síðast en ekki síst skapa aukið traust á stjórnmálunum og efnahagsstjórn landsins.“
Sigurður Ingi segir fyrri hálfleik kjörtímabilsins að baki og framundan sé seinni hálfleikur. Þá gagnrýnir hann „dómsdagsspámenn“ í grein sinni, enginn skortur sé á vondum spáum þeirra um ríkisstjórnarsamstarfið „í fjölmiðlum, heitum pottum og einstaka þingflokksherbergjum“ Það muni hins vegar ekki koma verðbólgunni niður.
„Fyrir nokkrum dögum rakst ég á konu sem hafði á orði við mig að henni þætti útlitið nú ekki bjart fyrir stjórnina, hver höndin upp á móti annarri og erfitt að ímynda sér að hún væri á vetur setjandi. Ég sagði við hana að vissulega mætti fólk stundum anda aðeins með nefinu áður en það léti vaða á samstarfsfólk sitt en þetta væri aðallega merki um stress. Eftir smá spjall urðum við sammála um það að það væri nú ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á það að skorast undan ábyrgð á erfiðum tímum. Allavega myndi Framsókn ekki gefast upp,“ bætir hann við.