Sjálfstæðisflokkurinn gengur formlega í EPP –European People´s Party

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðherra.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins var einn af aðalræðumönnum á stefnumörkunarráðstefnu EPP (European People’s Party) í Brussel á þriðjudag þar sem umræðuefni var hvernig lýðræðisríki geti unnið saman í heimi vaxandi ógnar sem stafar af andlýðræði og ógnarstjórn.

Á fundinum var aðild Sjálfstæðisflokksins að EPP formlega staðfest en hún hafði áður verið samþykkt á fundi sem Vilhjálmur Árnason ritari Sjálfstæðisflokksins sótti í október.

Á vefsíðu Sjálfstæðisflokksins segir að erindi Þórdísar hafi vakið mikla athygli og urðu talsverðar umræður í kjölfar erindisins auk þess sem finna mátti mikinn samhug fundarmanna með Íslandi vegna jarðhræringa á Reykjanesi.

Þórdís tók þátt í fundinum ásamt Þórði Þórarinssyni framkvæmdastjóra flokksins en fundinn sóttu allflestir systurflokkar Sjálfstæðisflokksins, bæði í Evrópu og víðar, og ræddu sameiginleg hagsmunamál og stefnumótun. Þórdís átti jafnframt tvíhliða samtal við Manfred Weber, formann EPP og óformleg samtöl við fulltrúa norrænna systurflokka.

EPP eru samtök á miðju og til hægri á hinum pólitíska ás og taka virkan þátt í Evrópusamstarfinu, telja að Evrópumódelið sé mikilvægur þáttur í að evrópsk gildi séu höfð í hávegum í síbreytilegum heimi. Markmiðið sé að tengja Evrópusambandið betur borgurum aðildarlandanna og laga sambandið að veruleika og þörfum 21. aldarinnar, eins og það er orðað á vefsíðu samtakanna. Að mati EPP er sameinað og sterkt Evrópusamband best til þess fallið að takast á við hinar miklu ógnir og áskoranir sem eru á alþjóðavettvangi um þessar mundir.