Skaut á Svandísi: „Kjörtímabil stundum mislöng“ og „skárri stjórn“ með Sjálfstæðisflokki

Óhætt er að segja að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra nýsköpunar- og háskólamála hafi tekið sér einarða stöðu með sjávarútveginum með ræðu sinni á Sjávarútvegsdegi Deloitte, Samtaka atvinnulífsins og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í Hörpu í morgun.

Benti hún í upphæðu ræðu sinnar á mörg mál sem verið hafa til umræðu í samfélaginu, t.d. ólögmæta verktöku ríkisstofnana fyrir einstök ráðuneyti (bein vísun í umdeilt samstarf Samkeppniseftirlitsins og Matvælaráðuneytisins um kortlagningu á eignarhaldi í sjávarúvegi) og spurði hvað þau ættu öll sameiginlegt. Væri það ekki matvælaráðherrann Svandís Svavarsdóttir?

Taldi Áslaug Arna upp eitt og annað í helstu kerfum þjóðarinnar sem þurfi breytinga við, til dæmis verði að koma menntunarstigi landsmanna upp á við í alþjóðlegum samanburði. Mörgum öðrum kerfum þurfi að breyta, en ekki því kerfi sem talið sé eitt hið besta í heiminum, sem er stjórnkerfi fiskveiða, og standi undir stórum hluta af kostnaði við háskólanám í landinu.

Almennt var þetta hvatningarávarp ráðherrans til stjórnenda í sjávarútvegi um að þessi undirstöðuatvinnugrein taki þátt í menntunar- og nýsköpunarátaki til að fjölga megi stoðum íslensks efnahagslífs, en hún lét salinn líka vita vel að Sjálfstæðisflokkurinn ætli ekki að taka þátt í því að kollvarpa stjórnkerfi fiskveiða, þrátt fyrir áform matvælaráðherrans og niðurstöður starfshóps hennar, Auðlindarinnar okkar.

Spurði hún í léttum dúr hvort ekki væri í salnum almenn ánægja með ríkisstjórnina? Bætti hún þá við með beinum orðum að hún gæti að minnsta kosti fullyrt, að þessi ríkisstjórn væri „skárri“ með Sjálfstæðisflokkinn innanborðs. Þá vék hún að verkefnum stjórnmálamanna og óvæntum vendingum sem geta orðið með skömmum fyrirvara og tiltók sérstaklega að kjörtímabil verði „stundum mislöng“.

Er freistandi að setja þessi ummæli Áslaugar Örnu í samhengi við ört minnkandi vinsældir ríkisstjórnarinnar og flokkanna sem að henni standa og deilur sem hafa staðið í stjórnarsamstarfinu undanfarnar vikur og mánuði.