Skuldasöfnun borgarinnar er auðvitað ógnvænleg

„Staðan í efnahagslífinu, staða heimilanna, verður krefjandi og því aðalverkefni vetrarins. Þar þurfum við þingmenn að taka höndum saman og beina kröftum okkar að því að koma jafnvægi á hagkerfið. Tónninn hefur verið sleginn með mikilvægum hagræðingaraðgerðum og það er mikilvægt að við þingmenn, sem förum með fjárveitingavaldið, fylgjum þeim fast eftir. Í umræðunni um stöðuna í efnahagsmálum hefur borið á fingrabendingum og ekki beint verið slegist um að taka ábyrgð. Nærtækt dæmi er auðvitað Reykjavíkurborg þar sem ljóst er orðið að meirihlutinn í Reykjavík heldur áfram að eyða umfram efni þrátt fyrir stórauknar tekjur. Skuldasöfnun borgarinnar er auðvitað ógnvænleg,“ sagði Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins á þingi í dag.

Erfið rekstrarstaða Reykjavíkurborgar undir forystu Samfylkingarinnar hefur orðið sjálfstæðismönnum ítrekað umræðuefni að undanförnu. Diljá Mist sagði á þingi í dag að skiljanlegt sé að Samfylkingar- og Viðreisnarfólk sé viðkvæmt fyrir slíkri gagnrýni.

„Ég átta mig síður á hlutverki Pírata þegar kemur að stjórn efnahagsmála, reyndar eins og oft áður. En það er fráleitt að halda því fram að rekstur Reykjavíkurborgar, lang-langstærsta sveitarfélagsins, hafi engin áhrif á efnahagsmálin. Að halda því fram að reksturinn og forgangsröðun meiri hlutans í Reykjavík, hafi engin áhrif á stöðu heimilanna nær engri átt. Það stenst enga skoðun.

Auðvitað hefur lóðasveltistefnan og þéttingaráráttan í Reykjavík haft áhrif á húsnæðisverð og þar með verðbólgu og þar með vexti. Seðlabankastjóri hefur margbent á það að húsnæðisskorturinn sé stór hluti verðbólguvandans. Og ekki ætti að þurfa að vísa til orða hans, svo augljóst er samhengið. Fasteignabóluna sem ræðst af skorti af framboði þekkja allir. Og auðvitað hefur það áhrif, m.a. á fjárhagsstöðuna hjá barnafjölskyldum, að börn í Reykjavík fái ekki leikskólapláss fyrr en upp undir á þriðja ári,“ bætti þingmaðurinn við.

Athygli vakti að hún nefndi ekki Framsóknarflokkinn í umræðunni, samstarfsflokkinn í ríkisstjórn, þótt hann hafi komið föllnum meirihluta til bjargar eftir síðustu kosningar og að oddviti flokksins, Einar Þorsteinsson, verði borgarstjóri í Reykjavík um áramótin.