Sósíalistaflokkurinn á að verða sannkallaður verkalýðsflokkur

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Myndin er af vef Sósíalistaflokksins.

Sósíalistar halda félagsfund þann 19. janúar þar sem meðal annars verður ákveðið hvort kröfugerð Starfsgreinasambandsins (gamla Verkamannasambandsins) verði felld inn í stefnu flokksins.

Þetta tilkynnir einn af stofnendum flokksins og helsti hugmyndafræðingur hans, fjölmiðlamaðurinn Gunnar Smári Egilsson á fésbók í dag.

„Sósíalistaflokkurinn tæki þá upp þá stefnu sem mótuð hefur verið af lýðræðislegri vinnu innan verkalýðsfélaga um allt land sem hafa um 90 þúsund félaga, en kröfugerð VR og Landssamband verslunarmanna er nánast samhljóða kröfugerð SGS. Og yrði við það sannkallaður verkalýðsflokkur,“ segir Gunnar Smári.

Nokkuð náin tengsl virðast vera milli Sósíalistaflokksins og þeirra sem hafa tekið við forystustörfum í verkalýðshreyfingunni og ýmsum félagasamtökum að undanförnu. Þannig hefur Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, verið virk í starfi flokksins, auk þess sem nýr formaður Samtaka leigjenda, tónlistarkonan Margrét Kristín Blöndal (Magga Stína), kemur einnig úr röðum Sósíalista.

Gunnar Smári Egilsson, forsprakki Sósíalistaflokksins. / Ljósmynd: Útvarp Saga.

Af orðum Gunnars Smára að dæma stendur til að styrkja enn frekar tengsl Sósíalistaflokksins við verkalýðshreyfinguna, en samningar eru lausir eða að losna á vinnumarkaði og búið að vísa viðræðum til Ríkissáttasemjara. Er jafnvel talið líklegt að komið geti til verkfallsátaka á næstu vikum og mánuðum.

Verkalýðsforingjarnir Vilhjálmur Birgisson og Ragnar Þór Ingólfsson birtu nýlega myndir af gulum vestum sem þeir festu kaup á og vildu þannig minna á þann möguleika að efna til mótmæla að hætti gulvestunga.

Gunnar Smári bendir á síðu sinni, að aftur sé kominn kraftur í aðgerðir gulvestunga í Frakklandi.

„Eftir að dregið hafði úr afli mótmæla gulu vestanna fyrir og um hátíðirnar lifnaði aftur yfir þeim í gær. Það má reikna með enn meiri þátttöku næsta laugardag, þann 12. janúar. Hvenær kvikna sambærileg mótmæli á Íslandi?“ spyr hann.