Þinglok urðu á Alþingi í gærkvöldi og er samkomulag um að þetta löggjafarþing, 149. þing, komi saman á ný miðvikudaginn 28. ágúst. Þingstörfin hafa gengið greiðlega nú síðustu daga eftir að samstaða varð um hvernig þinglokum yrði hagað.
Í máli Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, kom fram, að alls hafa 120 lög verið samþykkt á þinginu og 47 ályktanir. Búið er að svara 49 munnlegum fyrirspurnum og 339 skriflegum. Sérstakar umræður hafa verið 35.
Forsetinn nefndi nokkur mál sem hann telur brýnt að vinna að á vettvangi forsætisnefndar þingsins á næstunni og snúa að störfum þess og ásýnd gagnvart almenningi:
„Ég vil nefna hér nokkur mikilvægustu málin, í fyrsta lagi endurskoðun siðareglna í ljósi nýfenginnar reynslu, í öðru lagi reglna um aðgengi að upplýsingum hjá Alþingi. Samkvæmt nýsamþykktum lögum um gildissvið upplýsingalaga taka þau nú til stjórnsýslu Alþingis eins og nánar er afmarkað í lögum um þingsköp Alþingis og reglum forsætisnefndar sem settar eru á grundvelli þeirra eins og þar segir. Frumvarp til laga um breytingu á þingsköpum liggur af þessu tilefni nú þegar fyrir og vinna við reglurnar er hafin. Ég vonast til þess að geta kynnt drögin á næsta fundi forsætisnefndar. Ég vil í þriðja lagi nefna aðra endurskoðun þingskapa Alþingis sem lýtur þá að umræðum og skipulagningu þeirra, auk ýmissa annarra atriða sem því tengjast.
Ég held að flestir alþingismenn séu nú eftir þinghaldið síðustu vikur nokkuð hugsi yfir því hvernig störfum okkar þingmanna er hagað samkvæmt gildandi reglum og birtist þjóðinni daglega í fréttum og beinum útsendingum og þá á hvaða braut Alþingi er komið, ekki síst í ljósi þess rýra trausts sem það nýtur um þessar mundir. Við öllum blasir einkennileg framkvæmd andsvara sem verður að taka til endurskoðunar og færa í það horf sem til var stofnað í upphafi við afnám deildanna 1991.
Eins hlýtur að koma til skoðunar það fyrirkomulag við 2. umr. lagafrumvarpa og síðari umr. þingsályktunartillagna að réttur manna til að taka til máls sé óendanlegur, að menn geti haldið umræðu gangandi ad infinitum. Um þessi atriði þarf að ná víðtækri samstöðu. Mikil vinna liggur fyrir og meira og minna fullunnar hugmyndir sem verið hafa til umræðu í hópi þingflokksformanna og nefnda sem skipaðar hafa verið til að fara yfir þessi mál mörg undangengin þing. Þar er við ýmsu hreyft sem væri til mikilla bóta fyrir alla þingmenn. Ég vonast til þess að koma þessari vinnu í farveg strax á næstu dögum.
Þinghaldið nú á 149. löggjafarþingi hefur þegar staðið í 865 klukkustundir eða þar um bil — og eru enn nokkrir dagar eftir. Þinghaldið hér á landi er langtum lengra en gengur og gerist hjá nágrönnum okkar á hinum Norðurlöndunum og víðast hvar í lýðræðisríkjum Evrópu. Raunar sker Alþingi sig algerlega úr hvað þetta snertir sem þjóðþing, m.a. sé litið til smæðar þess. Þess vegna er réttmætt að varpa fram þeirri spurningu hvort hlutirnir þurfi áfram að vera svona.
En það er kannski heldur enginn almennilega með hreint sakavottorð í þessum efnum hér í þessum sal.
Það er rétt að taka fram að sá sem hér stendur er sér að fullu meðvitaður um að hann er ekki saklaus af strákapörum hér á Alþingi, enda hef ég lengi verið í stjórnarandstöðu, stundum þar fáliðaður og hef þurft að láta mikið fyrir mér fara til að nokkur maður taki eftir mér. En það er kannski heldur enginn almennilega með hreint sakavottorð í þessum efnum hér í þessum sal. Ætli það sé ekki þannig þegar upp er staðið að meira og minna við öll og þeir flokkar sem nú eiga fulltrúa á Alþingi eiga sér allir sögu í þessum efnum þannig að málið er sameiginlegt viðfangsefni og verkefni okkar allra. Við getum ekki látið slíkt stöðva eðlilega og æskilega þróun þingstarfa alla 21. öldina. Við þurfum öll að standa saman um virðingu og sóma Alþingis en hvort tveggja getur aðeins verið áunnið.
Líkja má virðingu og sóma Alþingis við helluna miklu á Húsafelli forðum í tíð Snorra, Kvíahelluna. Henni var tiltölulega létt að velta af stalli en fæstir sem það gerðu höfðu afl til að koma henni upp aftur, hvað þá að leika það eftir Snorra að taka hana á brjóstið og bera hana hringinn í kringum kvíarnar.
Margskonar frágangur eftir
Þegar við alþingismenn göngum nú út úr þessum sal eru ekki allir lausir mála hér. Starfsfólk okkar á margt eftir óunnið næstu daga og vikur við frágang nýsamþykktra laga og ályktana auk annarra skjala og ræðna og það svo mjög að til nokkurra vandræða horfir með sumarleyfi sumra starfsmanna. Það álag sem á starfsfólki hefur verið að undanförnu er mér áhyggjuefni og það er óumflýjanlegt að fjölga verður starfsfólki Alþingis nema betra skipulag komist á störfin hér. Það er ekki hægt að leggja það álag á starfsfólk, t.d. fámennrar þingfundaskrifstofu eða þess vegna nefndasviðsins í heild, sem þar hefur verið undanfarna daga og vikur. Hvergi annars staðar stendur okkur nær að sjá um að þessir hlutir séu í góðu lagi en hér á sjálfu löggjafarþinginu.
Við lok þinghaldsins vil ég endurtaka þakkir mínar til alþingismanna fyrir samstarfið. Þó að á ýmsu hafi gengið hefur það í það heila tekið verið gott og árangursríkt því að þrátt fyrir að afgreiðsla mála stöðvaðist með öllu hér um vikna bil vegna ágreinings hefur í heildina tekist að afkasta mjög miklu og leiða ýmis stór mál til lykta með farsælum hætti. Á ýmsa mælikvarða hygg ég að þetta sé orðið eitt afkastamesta þing sögunnar — og þó ekki alveg búið, samanber það sem áður sagði um þinghald síðar í sumar.
Ég vil færa varaforsetum þakkir fyrir ágæta samvinnu við stjórn þinghaldsins, svo og formönnum þingflokka og formönnum stjórnmálaflokkanna. Skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis öllu þakka ég aðstoð og mjög mikið og mjög gott starf og samvinnu í hvívetna þar sem mikið hefur mætt á, ekki síst nú síðustu daga og vikur.
Ég óska utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu og vænti þess að við hittumst öll heil þegar Alþingi kemur saman að nýju í lok ágúst,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon ennfremur.