Steinunn Þóra og Haraldur sérstakir varaforsetar

Haraldur Benediktsson og Steinunn Þóra Árnadóttir skipuðu sérstaka forsætisnefnd vegna málsins.

Þau Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna og Haraldur Bendiktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, eru nýkjörnir sérstakir varaforsetar forsætisnefndar Alþingis.

Atkvæðagreiðsla fór fram á þingi áðan með afbrigðum og undir háværum mótmælum nokkurra þingmanna Miðflokksins og utan flokka.

Að tillögu forseta Alþingis og vegna vanhæfis forsætisnefndar Alþingis eins og hún leggur sig, er verkefni þeirra Haraldar og Steinunnar nú að taka fyrir svonefnt Klaustursmál og koma því í farveg, sem væntanlega er að afgreiða erindi þar að lútandi til siðanefndar Alþingis.

Yrði það í fyrsta sinn sem slíkt hefur verið gert, en fyrir liggur erindi frá aðila, sem ekki vill láta nafns síns getið, um að vísa einnig málefnum Ágústs Ólafs Ólafssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, til siðanefndarinnar.

Eftir rannsókn starfsfólks Alþingis var niðurstaðan að 3-5 þingmenn kæmu til greina í hlutverkið, aðrir hefðu valdið mögulegu vanhæfi með ummælum um Klaustursmálið á fyrri stigum.

Allir þingmenn Miðflokksins greiddu atkvæði gegn tillögu um kosningu þeirra Haraldar og Steinunnar auk Ólafs Ísleifssonar og Karls Gauta Hjaltasonar sem eru þingmenn utan flokka. Tillagan var hins vegar samþykkt afgerandi; 45 sögðu já en 9 nei.

Athygli vakti að Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og einn af varaforsetum Alþingis, tók ekki þátt í atkvæðagreiðslunni. Mun hann hafa verið þeirrar skoðunar, skv. heimildum Viljans, að ekki væri við hæfi að hann greiddi atkvæði, þar sem hann hefði áður lýst sig vanhæfan í málinu. Aðrir í forsætisnefnd, sem höfðu lýst sig vanhæfa, tóku hins vegar þátt í atkvæðagreiðslunni. Þeirra á meðal var forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon.

Hér að neðan má sjá hörð átök á Alþingi í dag um málið.