Mark Rutte, sem setið hefur í fjögur kjörtímabil sem forsætisráðherra í Hollandi, tilkynnti í morgun að hann hyggist hætta í stjórnmálum. Hollenska ríkisstjórnin féll fyrir helgi vegna deilna um útlendingamál, en mikil ásókn hælisleitenda hefur verið pólitískt deilumál þar í landi undanfarið.
Rutte mun leiða starfsstjórn í Hollandi fram að kosningum, sem boðaðar hafa verið í nóvember næstkomandi. Það er, ef honum tekst að verjast vantrausttillögu sem stjórnarandstaðan hyggst leggja fram til að knýja á um tafarlausar breytingar.
Málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd hafa verið viðkvæmt og eldfimt deilumál í hollenskum stjórnmálum að undanförnu. Innan ríkisstjórnarinnar hefur verið tekist á um stefnuna á landamærunum og mjög verið kallað eftir harðari aðgerðum. Flóttamannabúðir eru yfirfullar og ekkert lát á straumi flóttafólks.
Forsætisráðherrann hefur setið í embætti í þrettán ár og á undanförnum árum hlotið viðurnefnið „Teflon-Mark“, því hann hefur hrist af sér margvísleg pólitísk vandræði án sýnilegra vandkvæða, en nú er bleik brugðið og pólitískur ferill hans kominn á endastöð.