Svandís Svavarsdóttir matvælaráðaherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir , fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, lögðu fyrir ríkisstjórn í morgun tillögur að aðgerðum til stuðnings þeim bændum sem eiga í fjárhagserfiðleikum vegna núverandi efnahagsástands. Tillögurnar byggja á mati hóps sem var skipaður af ríkisstjórn til að fjalla um fjárhagsstöðu landbúnaðar á Íslandi og var skipaður ráðuneytisstjórum þriggja ráðuneyta; matvælaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og innviðaráðuneytis.
Fram kemur í tilkynningu að lögð er áhersla á að stuðla að nýliðun og kynslóðaskiptum í greininni með aðstoð við yngri bændur sem eru undirstaða landbúnaðarframleiðslu framtíðarinnar. Jafnframt er lögð áhersla á að stuðningskerfi styðji við atvinnugreinina með skilvirkum hætti í samræmi við áherslur stjórnvalda og gagnist þeim fjölskyldubúum sem eiga í hvað mestum vanda til skemmri tíma litið vegna hækkaðs fjármagnskostnaðar og langvarandi afkomubrests.
Áætlað er að stuðningur verði greiddur til 982 bænda fyrir árslok 2023, alls 1.600 milljónir króna.
Tillögurnar eru eftirtaldar:
- Ungbændastuðningur. Greitt verði álag á fjárfestingar í samþykktum umsóknum um nýliðunarstuðning á árunum 2017-2023, samtals 600 m.kr.
- Viðbótarfjárfestingastuðningur. Greitt verði álag á fjárfestingu í samþykktum umsóknum um fjárfestingarstuðning í sauðfjárrækt og nautgriparækt á árunum 2017-2023, samtals 450 m.kr.
- Viðbótarbýlisstuðningur. Greitt verði sérstakt framlag til þeirra sauðfjárbænda sem stunda sauðfjárrækt að meginatvinnu og eru með 300 vetrarfóðraðar kindur eða fleiri, samtals 450 m.kr.
- Viðbótargripagreiðslur á holdakýr – Greitt verði sérstakt framlag til þeirra bænda sem fengu greiddar gripagreiðslur á holdakýr árið 2023, samtals 100 m.kr.
- Áfram verði unnið að aðgerðum sem miða að því að styrkja stöðu landbúnaðar til framtíðar, svo sem varðandi lánakosti Byggðastofnunar, hagtölusöfnun í landbúnaði, afleysingarþjónustu bænda, tækifæri til hagræðingar og samstarfs og kyngreiningu á nautgripasæði.
Að auki er lagt til að þegar verði ráðist í vinnu við heildarendurskoðun og stefnumótun stuðningskerfi landbúnaðar. Áhersla er lögð á að horft verði til þeirrar framtíðarsýnar í landbúnaðarstefnu að framleiðsla verði arðbær og samkeppnishæf og tryggi byggðafestu, uppbyggingu þekkingar og eðlilega nýliðun og kynslóðaskipti.
Niðurstöður ráðuneytisstjórahóps má sjá hér, greinargerð hópsins hér, greiningu Byggðastofnunar hér og greiningu Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins hér.