Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar enn: VG og Framsókn myndu missa 8 þingmenn

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra svarar fréttamönnum að loknum ríkisstjórnarfundi . / Ljósmynd: Facebook forsætisráðherra.

Stuðningur við ríkisstjórnina er enn á niðurleið, ef marka má nýjan Þjóðarpúls Gallup sem RÚV birti í gær. Hann mældist 33% í júlí og minnkar um tvö prósentustig milli mánaða. Gjörbreyting yrði á þingstyrk Framsóknar og Vinstri grænna, ef þessu nýjasta könnun væri lögð til grundvallar og Miðflokkurinn er að sækja í sig veðrið.

Samfylking og Sjálfstæðisflokkur mælast með svipað fylgi og í fyrra mánuði, Samfylkingin er stærsti flokkurinn með 28% fylgi og Sjálfstæðisflokkur með 21%. Píratar mælast með 10,5%, Miðflokkurinn bætir við sig og er kominn upp að hlið Framsóknar með tæplega 9%, Viðreisn dalar aðeins og er með 7% fylgi og sitthvoru megin við sex prósentin eru Vinstri græn og Flokkur fólksins.

Sósíalistaflokkurinn mælist með 3,6% fylgi og myndi ekki ná þingsæti, ef þetta yrðu úrslit kosninganna.

„Samkvæmt þessum nýjasta þjóðarpúlsi myndi heildarfjöldi þingmanna miðað við kjördæmaúthlutun breytast verulega. Framsóknarflokkur fengi sex þingmenn en er með 13. Viðreisn fengi fjóra þingmenn en er með fimm.

Sjálfstæðisflokkur fengi 15 þingmenn en er með 17. Flokkur fólksins fengi þrjá þingmenn en er með sex. Miðflokkurinn fengi fimm en er með tvo, Píratar myndu halda sínum sex þingmönnum en Samfylkingin fengi 21 þingmann en hefur í dag sex. Vinstri græn fengju þrjá þingmenn en eru með átta.

Þátttökuhlutfall í þessum þjóðarpúlsi var 46,1 prósent, rúmlega 15 prósent taka ekki afstöðu eða vilja ekki gefa hana upp og ríflega níu prósent myndu skila auðu eða ekki kjósa,“ segir ennfremur í frétt RÚV.