Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, var heitt í hamsi er hann átaldi forseta Alþingis harðlega í dag í tilefni af atkvæðagreiðslu um sérstaka varaforseta til að vísa svonefndu Klausturmáli til siðanefndar Alþingis. Nokkuð sem aldrei hefur verið gert áður.
„Nú hefur forseti lýst hreint dæmalausum áformum sínum í þeim vandræðagangi sem hann sjálfur hefur sett þetta þing í með málsmeðferð sinni frá upphafi. Fyrir áramót lýsti forseti því yfir í skriflegri yfirlýsingu að hann hygðist láta breyta lögum og beita þeim svo afturvirkt til að ná ákveðinni niðurstöðu. Einhver hefur sagt honum að það gengi ekki upp og þá kynnir hann aðra leið sem gengur heldur engan veginn upp og er hreint út sagt fráleit, nánast fyndin ef hún væri ekki sorgleg vegna þess að hún varðar heiður þingsins,“ sagði Sigmundur Davíð.
„Hún varðar það að þingið sýni að það sé fært um að fylgja lögum sem það setur. Hann ætlast til þess að litið sé fram hjá lögum um þingsköp og beitt ákvæði sem er til þess ætlað að flýta fyrir framgangi mála til að hópur 57 eða 60 vanhæfra þingmanna geti valið tvo þingmenn sem forseti hefur handvalið til að skila þeirri niðurstöðu sem forseti er búinn að mæla fyrir um að þeir eigi að skila. Þetta, virðulegur forseti, er svartur blettur á störfum Alþingis,“ sagði Sigmundur Davíð.
Ekki áhyggjur af niðurstöðu siðanefndar
Hann sagði ennfremur að þótt oft sé hart tekist á í stjórnmálunum hafi hann leitast við að verja þó ákveðin grundvallarprinsipp og fyrir vikið oft komið til varnar fólki úr öðrum flokkum, pólitískum andstæðingum, jafnvel þegar það hefur verið erfitt.
„Það er sorglegt að sjá hvað Alþingi á fáa prinsippmenn. Ég hélt satt best að segja að þeir væru fleiri í Sjálfstæðisflokknum en raun ber vitni.
Allt er þetta gert til að koma máli til siðanefndar, máli sem heyrir ekki einu sinni undir nefndina samkvæmt reglunum sem um hana gilda. Gildissvið nefndarinnar sýnir að málið á ekki einu sinni heima þar, en þangað ætlar forseti Alþingis að troða því. Það er sama hvað kemur út úr þessari siðanefnd, ég hef ekki áhyggjur af þeirri niðurstöðu frekar en aðrir sem hafa talað hér á undan, en mér finnst sorglegt að sjá hvernig forseti Alþingis hefur leitt þingið út í þessar ógöngur sem eru því miður óhjákvæmilega bara upphafið að áframhaldandi og væntanlega vaxandi vandræðagangi,“ sagði Sigmundur Davíð.