Svona getur nú pólitíkin verið ljót

Ingibjörg Sólrun Gísladóttir er forstöðumaður Lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.

„Ég hef lesið skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um braggaframkvæmina og myndin sem þar er dregin upp ber stjórnsýslu borgarinnar ekki fagurt vitni. Tillaga um að vísa skýrslunni til héraðssaksóknara er hins vegar fráleit enda ekkert í skýrslunni sem gefur tilefni til þess og tillagan er til þess eins sett fram að ýta undir hugmyndir um að tilteknir einstaklingar hafi gerst sekir um refsivert athæfi.“

Þetta segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fv. borgarstjóri í færslu á fésbókinni í kvöld.

Ingibjörg Sólrún var borgarstjóri þegar háskólaneminn Dagur B. Eggertsson fékk sæti á lista Reykjavíkurlistans utan flokka og varð í kjölfarið borgarfulltrúi árið 2002.

„Svona getur nú pólitíkin verið ljót og svona er hægt að eyðileggja nauðsynlega og málefnalega umræðu um erfið mál,“ segir Ingibjörg Sólrún, en tilefni færslu hennar er augljóslega sá ásetningur Miðflokksins og Flokks fólksins í borgarstjórn, að vísa skýrslu Innri endurskoðunar til Héraðssaksóknara, eins og þær gerðu tillögu um á fundi borgarráðs sl. fimmtudag.