Stjórnvöld þurfa að tala um Grindavík án undanbragða, segir Morgunblaðið í leiðara í dag og vísar til þess að forystufólk ríkisstjórnar forðist að tala um raunverulega stöðu mála í Grindavík í ljósi yfirstandandi jarðhræringa, yfirvofandi ógnar af eldgosi og þess að líklegt má telja að hafið sé langvirkt eldvirknitímabil á Reykjanesskaga.
Það hvort og hvernig megi byggja Grindavík á nýjan leik er erfiðasta spurningin og svörin kunna að reynast enn erfiðari, segir í leiðaranum. Veðurstofan hafi nú gefið út nýtt hættumat fyrir svæðið og þar sé öll byggðin í hættu vegna jarðskjálfta en mestur hluti líka vegna eldgosavár, þar á meðal sprunguopnunar án fyrirvara, gosopnunar með stuttum fyrirvara, hraunflæðis og gasmengunar.
„Við blasir að við svo búið er enginn að flytja þangað aftur í bráð. Jafnvel þótt jarðhræringum og gosóróa linni í bili myndu fáir sofa rótt þar í bænum í vitneskju þess að hafið er nýtt og langvirkt eldvirknitímabil á Reykjanesskaga.
Nú þegar hafa ýmsir Grindvíkingar kveðið upp úr um að þeir geti ekki hugsað sér að búa þar framar, ekki síst yngra fólk með börn. Það á sjálfsagt við um fleiri, þó margir eða flestir vildu eflaust vera áfram í sínum heimabæ og sinna sínu og sínum þar áfram. En með ólgandi hraunkvikuna skammt undir fótum og eilífar hræringar sem setja bresti í bæði land, mannvirki og mannlíf, þá er þess varla kostur,“ segir ennfremur í leiðara Morgunblaðsins um leið og bent er á að í Grindavík sé öflugt atvinnulíf, ekki síst tengt sjósókn og fiskvinnslu en í ljósi þessarar náttúruvár séu frekari fjárfestingar þar ákaflega ósennilegar.
„Á þessu vill varla nokkur maður hafa orð, tilhugsunin er skelfileg fyrir fornfrægan bæ, Grindvíkinga sem aðra landsmenn. En það þýðir ekki heldur að loka augunum fyrir hinu augljósa og vona bara hið besta. Því jafnvel hið besta er ekki endilega mjög uppörvandi,“ segir leiðarahöfundur blaðsins ennfremur.