Þegar Samfylkingarmenn eru komnir út í horn gera þeir lítið úr konum

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins.

„Þegar Samfylkingarmenn eru komnir út í horn þá gera þeir lítið úr konum –  líklega líkar þeim ekki sterkar konur,“ segir Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins í færslu á fésbók, þar sem hún deilir frétt Viljans frá í gærkvöldi um braggamálið, þar sem fram kemur að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ætli sér ekki að víkja sæti í rýnihópi um skýrslu Innri endurskoðunar um braggamálið.

Borgarstjóri sagði í viðtölum í gær að harðlínuöfl í Sjálfstæðisflokknum hefðu tekið völdin af Hildi Björnsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, en hún hefði upphaflega verið búin að samþykkja að vera í rýnihóp með sér og formanni borgarráðs.

Vigdís gefur ekki mikið fyrir þessi ummæli borgarstjóra:

„Dagur lét að því liggja í kvöldfréttum RÚV að Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi væri ekki sjálfstæð í verkum sínum heldur hefði hún lúffað fyrir ósýnilegum óvini Samfylkingarinnar sem hann finnur sífellt þegar gefur á bátinn í Sjálfstæðisflokknum eða Hádegismóum – það er aumkunarvert.“

Vigdís bendir líka á að Dagur hafi sagt í fjölmiðlum í gær, að braggamálinu sé lokið, framkvæmdum sé lokið og óháðri úttekt lokið.

„Það er líka aumkunarvert og meira að segja líka ósatt …!!! Braggamálið er rétt að byrja,“ segir Vigdís Hauksdóttir.