Þeir sem neita samvinnu við yfirvöld sæti vistun í búsetuúrræði með takmörkunum

Styðja þarf vel við flóttafólk sem hlýtur alþjóðlega vernd og aðstoða það við að aðlagast
íslensku samfélagi. Þeim sem ekki fá alþjóðlega vernd skal gert að yfirgefa landið eins fljótt
og auðið er eftir að niðurstaða í þeirra málum liggur fyrir lögum samkvæmt. Þeir sem ekki
eiga samvinnu við yfirvöld skulu sæta vistun í búsetuúrræði með takmörkunum þar til hægt
er að brottvísa af landinu.

Þetta kemur fram í stjórnmálaályktun Sjálfstæðisflokksins sem samþykkt var á flokksstjórnarfundi í gær. Þar segir að Sjálfstæðisflokkurinn standi vörð um verndarkerfi flóttamanna, sem nú sé ógnað.

„Í kjölfar mikillar fjölgunar umsókna um alþjóðlega vernd hefur álag aukist verulega á sveitarfélög og samfélagslega innviði. Undir forystu ráðherra Sjálfstæðisflokksins hafa verið gerðar lagabreytingar til að styrkja undirstöður verndarkerfisins en margt er enn ógert. Einfalda þarf kerfið og stytta alla ferla er varða umsækjendur um alþjóðlega vernd,“ segir þar ennfremur.

Í stjórnmálaályktuninni segir jafnframt að útlendingalöggjöfina þurfi að þróa áfram af ábyrgð og raunsæi með löggjöf og framkvæmd annarra Norðurlanda sem fyrirmynd.

Jón Gunnarsson, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sagði í umræðum í vefsjónvarpi Sjálfstæðisflokksins á fundinum, að mikilvægt sé að Sjálfstæðisflokkurinn „standi fast í lappirnar“ í þessu máli og viðbúið sé að staðan verði viðkvæm næstu vikur meðan ný löggjöf hefur tilætluð áhrif, en svo ætti væntanlega að draga úr straumi fólks með tilhæfulausar umsóknir. Sagðist hann treysta því að hinir stjórnarflokkarnir muni sömuleiðis standa í lappirnar í þessu máli.

Vinstri græn vilja engar flóttamannabúðir

Í nýsamþykktri stjórnmálaályktun Vinstri grænna kveður við allt annan tón. Þar segir beinlínis að mótmælt sé „vinnubrögðum við framkvæmd nýrra útlendingalaga hvað varðar þjónustumissi þeirra, sem hlotið hafa endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd, að 30 dögum liðnum. Framkvæmdin má ekki verða til þess að fólk sé skilið eftir á götunni. Slíkt er grafalvarlegt og í hróplegu ósamræmi við það samfélag sem við viljum búa í. Um leið er ítrekað mikilvægi þess að samkvæmt lögunum má ekki fella niður réttindi barna, foreldra eða umsjónarmanna þeirra og annarra heimilismanna sem teljast til ættingja barna, barnshafandi kvenna ásamt alvarlega veikum einstaklingum og fötluðum með langvarandi stuðningsþarfir. Grundvallarmannréttindi þeirra sem missa þjónustu verður að tryggja. Lokaðar flóttamannabúðir þar sem fólk er geymt þar til hægt er að senda það úr landi er ekki lausnin á þessari stöðu.“