Þingið þarf að standa undir ábyrgð sinni og mynda nýjan meirihluta

Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fv. ráðherra.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ráðherra, segir ummæli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um orkumál í gær, staðfesta það sem hann hafi haldið fram undanfarið, að núverandi ríkisstjórn sé ekki í færum til að rjúfa kyrrstöðu í orkuuppbyggingu hér á landi og hefja stórátak í verðmætasköpun. Þess vegna þurfi þingið að standa undir ábyrgð sinni og mynda nýjan meirihluta um að hefjast þegar handa.

Fram kom í viðtali Ríkisútvarpsins við forsætisráðherra í gær, að mikilvægt sé að ræða orkumálin með heildstæðum hætt. Kvaðst hún ekki óttast raforkuskort en að skilgreina þurfi grunnorkuþörf. Næsta stóra verkefni stjórnvalda sé að taka afstöðu til rammáætlunar sem er væntanleg á næstu misserum og til tillagna um uppbyggingu vindorku. Ekki megi fórna faglegum sjónarmiðum, en virkja þurfi meira fyrir orkuskiptin.

Í samtali við Viljann í dag er Jón Gunnarsson harðorður, þar sem hann líkir þessum ummælum forsætisráðherra við það að horfa á Róm brenna, en fara fremur í að rýna skipulag brunavarna og reglugerðir en að slökkva eldinn. „Hér er komin upp sú ótrúlega staða, að það er neyðarástand og orkuskortur yfirvofandi og við þurfum alls ekki fleiri skýrslur eða hvítbækur til að leysa þann vanda, við höfum einmitt eytt allt of miklum tíma í slíkt í stað þess að hefjast handa um nauðsynlegar framkvæmdir,“ segir hann.

Hann segir útspil forsætisráðherra lýsandi fyrir stefnu Vinstri grænna og raunar Landverndar líka, að öll tækifæri til að tefja málin séu notuð út í ystu æsar, það ríki „tafapólitík“ í virkjanamálum og hafi gert lengi. En nú verði ekki lengur við slíkt búið.

„Við sjáum í fréttum að það hillir í sögulega langtímasamninga á vinnumarkaði um nýja þjóðarsátt, þar sem markmiðið er að ná niður verðbólgunni og vöxtum. Á sama tíma þurfa stjórnvöld að skapa tækifæri til frekari verðmætasköpunar og fjölgunar verðmætra starfa um allt land. Þannig stækkum við kökuna sem verður til skiptanna fyrir land og þjóð. Augljósa tækifærið í þeim efnum liggur í frekari nýtingu orkuauðlinda okkar og eflingu dreifikerfis raforku, þar eigum við tækifæri umfram aðrar þjóðir. Áhrif þess munu síðan leiða til þess að menn geta hætt að tala um skattahækkanir á atvinnustarfsemi og einstaklinga til að efla opinbera þjónustu en í stað þess lækkað skatta almennt,“ segir Jón.

Hann bendir á að Miðflokkurinn, Viðreisn, Flokkur fólksins og hluti þingmanna Samfylkingar hafi talað fyrir því að hefjast þegar handa og því liggi fyrir þingmeirihluti í málinu, en ríkisstjórnin nái ekki saman í þessum málum og þar sé allt strand. Þingmenn verði því að standa undir ábyrgð sinni og stíga næstu skref á nýju ári.