Þingmaður sakar Fréttablaðið um falsfrétt: Ekki á leið úr Miðflokknum

Sigurður Páll Jónsson er ekki á leið úr Miðflokknum.

Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi, er ekki á leið úr Miðflokknum yfir í Sjálfstæðisflokkinn, eins og Fréttablaðið skýrði frá á forsíðu blaðsins í dag að standi jafnvel til vegna óánægju með Klaustursmálið.

„Nei, það er ekkert til í því,“ sagði Sigurður Páll í samtali við Viljann í morgun og sagði þetta falsfrétt, eða fake news eins og það er kallað á ensku.

Aðspurður, sagði hann að Fréttablaðið hefði ekkert talað við sig um málið áður en fréttin var birt og hann hefði því fyrst séð „þessa vitleysu“ í morgun.

Fréttablaðið skýrði frá því í dag að óánægðir þingmenn Miðflokksins sem ekki tóku þátt í samkvæminu á Klaustri séu jafnvel taldir munu yfirgefa þingflokkinn og orðaðir við Sjálfstæðisflokkinn.