Þingmenn Miðflokksins töldu alla vanhæfa: Málið verði fellt niður án tafar

Samsett mynd DV. Birt með leyfi.

Fjórir þingmenn Miðflokksins kröfðust þess í bréfi til forseta Alþingis, að fulltrúar í forsætisnefnd vikju sæti vegna vanhæfis í afgreiðslu Klaustursmálsins. Jafnframt krefjast þeir þess að málið verði fellt niður þar sem það sé rekið á pólitískum forsendum.

Viljinn sagði fyrstur fjölmiðla frá því í dag að forseti Alþingis og tveir aðrir forsætisnefndarmenn, þau Guðjón S. Brjánsson og Þórunn Egilsdóttir, hefðu ákveðið að segja sig frá málinu vegna vanhæfis. Á fundi í dag ákváðu svo allir aðrir forsætisnefndarmenn að fylgja fordæmi þeirra.

Engir varamenn eru í forsætisnefnd og því málið fallið um sjálft sig þegar kemur að mögulegri afgreiðslu Klaustursmálsins til siðanefndar þingsins. Í yfirlýsingu í dag boðaði Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, að lagt yrði fram lagafrumvarp eftir áramót til að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin.

Alvarlegar athugasemdir

En spurningin sem vaknar, er þessi: Hvað varð til þess að öll forsætisnefndin tók þessa fordæmalausu ákvörðun?

Samkvæmt öruggum heimildum Viljans, barst forsætisnefnd Alþingis svar við bréfi sem Steingrímur J. Sigfússon hafði sent fjórum þingmönnum Miðflokksins og tveimur þingmönnum sem áður tilheyrðu Flokki fólksins þar sem þeim var gefinn var kostur á að gera athugasemdir við hæfi nefndarmanna í forsætisnefnd. Bréfið mun hafa verið sent í samræmi við þær reglur sem gilda um starf nefndarinnar.

Viljinn sagði fyrstur fjölmiðla frá því í dag að forseti Alþingis og tveir aðrir forsætisnefndarmenn hefðu ákveðið að segja sig frá málinu vegna vanhæfis.

Heimildir Viljans herma að í svarbréfinu hafi verið gerðar alvarlegar athugasemdir við hæfi flestra eða allra nefndarmanna. Einkum snerust athugasemdirnar um þá þrjá nefndarmenn sem fyrstir sögðu sig frá málinu eins og Viljinn greindi frá fyrr í dag. Bent var á að nefndarmenn forsætisnefndar hafðu tjáð sig með afdráttarlausum og neikvæðum hætti um málið, bæði í fjölmiðlum og í ræðustól Alþingis. Forseti Alþingis hafi verið þeirra á meðal. Þetta hafi leitt til vanhæfis,

Aðrir nefndarmenn í forsætisnefnd endurmátu í framhaldinu eigið hæfi og komust allir að þeirri niðurstöðu að þeir teldust ekki hæfir til að afgreiða málið. Heimildarmenn Viljans telja að í einhverjum tilvikum hafi það byggst á því að þeir væru pólitískir andstæðingar þeirra sem nefndin fjallaði um eða samherjar þeirra sem sendu málið til nefndarinnar í upphafi.

Forsætisráðherra hafi komið að málinu

Heimildir herma að í svarbréfinu til nefndarinnar hafi verið bent á að forsætisráðherra hafi tekið þátt í að ákveða farveg málsins með forseta þingsins sem gefi til kynna að stjórnmálalegar ástæður liggi að baki ákvörðuninni um að taka málið til meðferðar, en slíkt leiði til vanhæfis samkvæmt siðareglum alþingis og ákvæðum þeirra um að þær verði aldrei misnotaðar í pólitískum tilgangi.

Viljinn hefur jafnframt heimildir fyrir því að þingmenn Miðflokksins hafni því alfarið að málið varði siðareglur Alþingis og að ýmislegt í málinu bendi til þess að pólitísk sjónarmið og óvild ráði för, enda sé ljóst að eina lögbrotið sem tengist málinu sé ólögleg upptaka á einkasamtali á skemmtistaðnum þetta kvöld.

Niðurstaðan varð svo ljós í dag þegar gervöll forsætisnefnd, þ.e. forseti Alþingis og allir varaforsetar þess, sögðu sig frá málinu.

Átök á þingi á nýju ári

Innan forsætisnefndar deila menn um hvort yfir höfuð sé hægt að vísa upptökunum og málum sem af því hafa spunnist til siðanefndar enda gildi siðareglurnar aðeins um það sem þingmenn gera sem hluta af skyldum sínum sem þjóðkjörnir fulltrúar. Jafnframt munu einhverjir nefndarmenn hafa efasemdir um að hægt sé að styðjast við upptökur sem kunni að reynast ólögmætar.

Forseti Alþingis tilkynnti vanhæfi allra forsætisnefndarmanna með yfirlýsingu.

Eins og áður segir hefur forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon þó boðað að hann muni beita sér fyrir lagabreytingum svo hægt verði að halda málinu áfram. Það er spurning hvernig brugðist verður við því ef þingmenn sem hafa áður lýst sig vanhæfa til að vísa málinu til siðanefndar ákveða að taka ákvörðun um slíkt eftir að hafa breytt lögum.

Í öllu falli er viðbúið að upphaf þings eftir áramót geti reynst líflegt og óvíst að þingmenn skiptist þar í hefðbundnar fylkingar stjórnar og stjórnarandstöðu.