Þorgerður Katrín: „Núna er ekki tíminn til að hækka skatta“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Það er alltaf ánægjulegt þegar kjörnir fulltrúar á löggjafarsamkundunni gæta hagsmuna skattborgaranna og því miður ekki of algengt. Þess vegna vakti athygli á Alþingi í gær, þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, stillti flokk sinn af í skattaumræðum og hélt áfram þeirri vegferð til hægri inn á miðjuna sem áberandi hefur verið undanfarnar vikur.

„Ég hygg að við fjármálaráðherra séum sammála um það að við Íslendingar erum meðal þeirra þjóða sem greiða hvað mest í skatt og vart á það bætandi. Viðreisn leggur mikla áherslu á að núna er ekki tíminn til að hækka skatta sem við vitum að á endanum munu bitna af miklum krafti á millitekjuhópunum m.a. sem róa nú þegar mjög þungan róður,“ sagði Þorgerður Katrín meðal annars.

Og svo benti hún á að tekjuskattur á fyrirtæki verði hækkaður á næsta ári, tímabundið í eitt ár og sagði:

„Ríkisstjórnin hefur líka sagt að hún ætli að hækka álögur á lögaðila, fyrirtæki. Það er tímabundið, vissulega, og fjármálaráðherra má vita það að ég verð tilbúin með skeiðklukkuna og mun hnippa í hann til að fylgjast með því að þetta verði bara tímabundið, því fátt er jafn varanlegt í þessum heimi og boðaðar tímabundnar skattahækkanir. Hvað aðhaldið varðar höfum við í Viðreisn lagt áherslu á það að hagræða og einfalda kerfið sem mun hafa í för með sér mikinn þjóðhagslegan sparnað.“

Öllum slíkum málflutningi á Alþingi hlýtur borgaralega sinnað fólk að fagna.