Þorgerður Katrín tekur beygju til hægri með Viðreisn og kominn tími til

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.

Með ört dalandi fylgi stjórnarflokkanna og minnkandi vinsældum ríkisstjórnarinnar hefur verið rannsóknarefni hvers vegna Viðreisn nær ekki meira flugi en raun ber vitni. Sannarlega er enginn hörgull á óánægðu borgaralega þenkjandi fólki og Miðflokkurinn hefur nokkuð grætt á því um leið og hann hefur gengið í endurnýjun lífdaga.

Ljóst er að samstarf Viðreisnar í Reykjavíkurmeirihlutanum og málflutningur sumra þingmanna flokksins hefur orðið til þess að flokkur sem varð til sem klofningur úr Sjálfstæðisflokknum var kominn með vinstri stimpil á sig, þótt kanónur á borð við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Þorstein Pálsson væru þar innanborðs. Meira að segja fyrrverandi þingmaður flokksins og ráðherra, sagði sinn gamla flokk hafa færst of mikið til vinstri og eigi orðið erfiðara með að greina sig frá Samfylkingunni. Þetta sjáist bæði í meirihlutasamstarfinu í Reykjavík en sé „líka vandamál í landsmálunum“.

Formaðurinn Þorgerður Katrín er eldri en tvævetur í pólitík og hún skynjar breytingarnar í loftinu betur en margur annar. Allt annar tónn var kominn í hana í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í gærkvöldi, þar sem sagði sumarið hafa verið afhjúpandi fyrir ríkisstjórnina og veikleika hennar. „Hver ráðherrann situr nú í sínu horni og spilar á sitt hljóðfæri. Vanalega væri það ekki vandamál fyrir utan að þau eru ekki að spila sama lagið og það er hvorki taktfast né áhrifaríkt. Það er ekki trúverðugt eða grípandi og það er ekki óskalag þjóðarinnar.“

En svo sagði Þorgerður Katrín:

„Sú óvenjulega staða er sem sagt komin upp að stjórnarandstaðan þarf ekki að eyða púðri í að skjóta á ríkisstjórnina sem hefur málefnalega runnið sitt skeið. Stjórnarliðar sjá um það sjálfir. Þetta er auðvitað dæmalaust, en gefur okkur tækifæri til að ræða grundvallarhugmyndir og hver helstu verkefni næstu ríkisstjórnar verða.

Ég hef sterka sannfæringu fyrir því að hugmyndafræðin á miðju stjórnmálanna þurfi að koma öflugri inn á Alþingi eftir næstu kosningar til að treysta betur efnahagslegan, félagslegan og pólitískan stöðugleika. Viðreisn mun áfram byggja á þeim frjálslyndu víðsýnu hugmyndum sem lagðar voru til grundvallar við stofnun flokksins. Ég er að tala um jafnvægið milli athafnafrelsis og velferðar og mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu, til að treysta öryggi landsins, auka efnahagslega grósku og skapa jöfn tækifæri.“

Ekki áhersla á inngöngu heldur atkvæðagreiðslu

Annað sem vakti athygli í ræðu formanns Viðreisnar, var að flokkurinn leggur ekki lengur áherslu á að Ísland gangi í Evrópusambandið. Það er skynsamleg áherslubreyting, nógu mikil til að höfða til fleiri en nógu varfærin til að styggja ekki þá sem stofnuðu flokkinn beinlínis í því augnamiði. Nú er áherslan á að fara í þjóðaratkvæði um hvort halda eigi aðildarviðræðum áfram.

„Afstaða okkar í Viðreisn er skýr: Við teljum m.a. að aðild að Evrópusambandinu myndi auðvelda okkur að ná þessum markmiðum um að tryggja hér jöfn tækifæri og samkeppni. Á endanum er aðild eitt stærsta velferðarmálið. Viðreisn vill leggja það í dóm þjóðarinnar hvort eigi að ljúka þeirri vegferð. Í glænýrri könnun frá Maskínu kom í ljós að ríflegur meiri hluti þjóðarinnar vill fá að kjósa um framhaldið en aðeins 19% eru því andvíg. Viðreisn vill ekki leyfa Brexit-sinnum þessa lands að ráða heldur þjóðinni sjálfri. Þjóðin á að ráða þessu og ég spyr: Af hverju ekki?“