Þungunarrof í 22. viku: Kvenréttindafélagið eins og undirdeild í Vinstri grænum

Dr. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, fv. alþingismaður.

Dr. Ólína Þorvarðardóttir, fv. þingmaður Samfylkingarinnar segir hræðilegt að Kvenréttindafélag Íslands skuli vera farið að safna undirskriftum til stuðnings við frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um þungunarrof, en í því er gert ráð fyrir að leyfileg mörk fyrir fóstureyðingu verði færð í lok 22. viku. Segist hún ekki lengur finna til samstöðu með Kvenréttindafélaginu, sem sé rekið eins og undirdeild í Vinstri grænum, flokki ráðherrans.

„Eiginlega er mér óskiljanlegt af hverju verið er að eiga við núgildandi mörk (16 vikur í reynd). Um þau var full sátt. Konur sem vilja gjarnan styðja sjálfsákvörðunarrétt kvenna og innleiða hugtakið þungunarrof – ég er í þeim hópi – eiga þess vegna mjög erfitt með að styðja frumvarpið með svo rúmum tímamörkum. Fyrir vikið er verið að reka fleyg í samstöðu kvenna um sjálfsákvörðunarrétt í þessum málum. Það finnst mér afar slæmt,“ segir Ólína í færslu sem hún ritar á fésbók í dag.

Hún undrast framgöngu Kvenréttindafélags Íslands, sem sé „gengið í lið með heilbrigðisráðherra í þessu máli og farið að safna undirskriftum við frumvarpið eins og félagið sé einhverskonar undirdeild í flokki ráðherrans.“

„Sjálf finn ég ekki til samstöðu með Kvenréttindafélaginu eins og málum er háttað,“ segir Ólína.

Af vefsíðunni doktor.is.