Tilviljun að Bláa lónið falli innan leiðigarðsins

„Þeirri spurningu hefur verið velt upp að undanförnu hvort einkafyrirtæki eigi að greiða fyrir varnargarða vegna mögulegrar náttúruvár að hluta eða öllu leyti. Því miður hefur í gegnum tíðina heyrst svipuð umræða varðandi uppbyggingu snjóflóðavarnagarða og því vert að minnast á að ríkisstjórnin samþykkti í ágúst að vinna frumvarp og útvíkka hlutverk ofanflóðasjóðs þannig að hann tæki einnig til varna gegn ofanflóðum á atvinnusvæðum. Aldrei hef ég heyrt neinar mótbárur gegn þeim hugmyndum enda grundvallast þær á ákveðnu prinsippi. Við hljótum öll að vera sammála um að það er gríðarlega mikilvægt fyrir samfélagið að ganga í slíkar varnir,“ sagði Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag.

Sagði hann varnargarðar á Reykjanesi hugsaða til að varna mikilvægum innviðum og almannahagsmunum. „Leiðigarður fyrir orkuverið í Svartsengi er hannaður af góðri ástæðu á hæstu punktum í landslagi. Það er því tilviljun að Bláa lónið fellur þar inn í. Önnur fyrirtæki sem hafa starfsemi í orkugeiranum eru t.d. ekki innan varnargarðs og gerð varnargarða kemur til eftir mat almannavarna á gagnsemi þeirra á hverjum tíma. Ef starfsemi í orkuverinu í Svartsengi lamast skapast mjög alvarlegt almannavarnaástand ofan á það alvarlega ástand sem nú er komið upp í Grindavík og blasir við íbúum Grindavíkur. Þar þurfum við að leggja allt okkar í sölurnar,“ bætti hann við.

Jóhann, sem kemur sjálfur af Suðurnesjum, sagði nauðsynlegt að stofnaður verði náttúruvársjóður sem sameinar hlutverk ofanflóðasjóðs og Náttúruhamfaratrygginga og tæki til varna gegn allri náttúruvá.

„Í mínum huga á hið opinbera ríki og eftir atvikum sveitarfélög að bera kostnað af almannavörnum hér á landi, enda væri annað fjarstæðukennt. Saman verðum við að axla ábyrgð og reyna eftir fremsta megni að lágmarka tjón af náttúruhamförum sé þess einhver kostur,“ bætti hann við.